148. löggjafarþing — 17. fundur,  25. jan. 2018.

dánaraðstoð.

91. mál
[15:09]
Horfa

Flm. (Bryndís Haraldsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Aftur ég þakka hv. þm. Unu Hildardóttur fyrir andsvarið og tek undir áhyggjur hennar og ábendingar. Ég er henni hjartanlega sammála. Það var eitt af því sem ég spurði sérstaklega út í varðandi hollensku leiðina, hvort þetta ætti líka við um þegar fólk væri að glíma við geðheilbrigðisvandamál.

Já, það er svoleiðis samkvæmt hollensku leiðinni, ef ég skil það rétt. Ég get alveg tekið undir að það vekur ákveðinn ótta. Ef við förum lengra með þetta mál þurfum við að horfa til þess. En reynslan er engu að síður sú í Hollandi að þetta eru að langstærstum hluta krabbameinssjúklingar sem eru mjög langt leiddir og mjög þjakaðir af kvölum og sársauka og ljóst að sjúkdómur þeirra er ólæknandi. Það er langstærsti hópurinn sem hefur sótt í dánaraðstoð og óskað eftir henni og fengið samþykki. En ég tek heils hugar undir þegar kemur að andlega veiku fólki og hvort ekki sé hægt að lina þjáningar þess eða annað, að það er auðvitað mjög viðkvæmt svið og þyrfti að fara sérstaklega yfir það ef það ætti að koma til.