154. löggjafarþing — 17. fundur,  18. okt. 2023.

ávana- og fíkniefni.

102. mál
[17:06]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég játa að spurning hv. þingmanns er mér eilítið óljós. Ef ég skil hana rétt þá varðar hún það að hvaða marki megi afmarka þessa heimild í reglugerð en ekki í lögunum sjálfum, ef ég skil spurninguna rétt. Hvað það varðar þá er þetta frumvarp unnið að portúgalskri fyrirmynd, fyrirmynd frá öðrum ríkjum. Hins vegar er það ekki þannig endilega að þessi mörk séu nákvæmlega þau sömu í öllum ríkjum og það er sannarlega ekki útilokað að mínu mati, ég tel það ekki útilokað að mati neins sem stendur að baki þessu frumvarpi, að eitthvað sem skilgreint er sem reglugerðarheimild í lögunum verði fært inn í lögin ef þess er þörf. Ég endurtek hins vegar að það getur verið að ég hafi ekki skilið fyllilega spurningu hv. þingmanns og hlakka til að eiga samtal við hv. þingmann um þetta við vinnslu málsins hér á þinginu.