154. löggjafarþing — 17. fundur,  18. okt. 2023.

félagafrelsi á vinnumarkaði.

313. mál
[18:04]
Horfa

Flm. (Óli Björn Kárason) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég var orðinn dálítið ánægður með hv. þm. Björn Leví Gunnarsson í fyrri hluta svarsins en svo fór að halla aðeins undan vegna þess að mér fannst eins og hann væri að taka undir að það ætti að skoða þetta mál, hann væri fylgjandi svona markmiðunum en svo fór hann í einhvern veginn í gamlar skotgrafir sem menn fara stundum í. En allt í lagi. Ég ætla bara að benda hv. þingmanni á eitt varðandi það að valdefla þá sem standa lakar en aðrir. Nú er ekki lagaleg skylda á neinum launamanni á almennum vinnumarkaði að ganga í verkalýðsfélag. Það er ekki þannig. En það er þannig að í reykfylltum bakherbergjum þar sem atvinnurekendur setjast niður með verkalýðsforystunni er tekin ákvörðun um það í kjarasamningi að félagar í viðkomandi verkalýðsfélagi skuli hafa forgang um vinnu, þ.e. það er verið að ganga á rétt og skerða rétt þess sem hefur valið sér að standa utan félagsins og stendur þar af leiðandi höllum fæti. Ég er bara að biðja hv. þingmann að slást í lið með okkur og styrkja þetta fólk, (Gripið fram í.) þá sem af einhverjum ástæðum standa utan, t.d. vegna þess að þeir eru óánægðir með það verkalýðsfélag sem þeir ættu hugsanlega að tilheyra, þannig að það sé ekki hægt og atvinnurekendur geti ekki með samningum við verkalýðsfélag knúið í raun launafólk til að ganga í ákveðið verkalýðsfélag þvert sér að skapi. Það tel ég vera að valdefla fólk sem stendur kannski höllum fæti, hv. þingmaður.