136. löggjafarþing — 17. fundur,  30. okt. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál og aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

[19:29]
Horfa

Ármann Kr. Ólafsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er hárrétt túlkun hjá hv. þingmanni, þetta er einmitt það sem ég meina. Það er hins vegar spurning hvort við getum gert sömu kröfur innan styttri tímaramma. Það mætti líka endurskoða og það tel ég mjög mikilvægt.

Eitt af því sem menn nota t.d. í Danmörku til að laða að erlenda fjárfestingu — mjög oft þarf að halda úti dýrum starfskröftum í byrjun til að kanna og skoða fjárfestingarmöguleika, og þá eru þeir með sérstakar skattafrestanir og skattaívilnanir á stjórnendateymum og sérfræðingum sem eru yfir ákveðnum tekjumörkum. Ég held að það gæti verið ein leið til að fá fyrirtækin til að freista þess að senda starfsfólk hingað til að vinna með okkur.

Ég vil líka undirstrika að við það að laða að erlent vinnuafl og við það að nýta orkuna okkar finnst mér mikið atriði að þetta sé ekki allt á sama sviði og mér finnst líka mikið atriði að það sé skoðað hversu mörg störf koma á hverja orkueiningu. Þannig getum við verið með störf sem kalla á eitt starf — þá er ég ekki að tala um afleidd störf heldur eitt starf í viðkomandi verksmiðju eða framleiðslu — og svo getum við verið með aðra framleiðslu sem jafnvel kallar á fjögur störf á hvert megavatt. Ekki nóg með það heldur getur hlutfallið þar verið kannski 50 til 60% hálaunastörf. Þetta finnst mér líka þurfa að skoða.

Því miður, herra forseti, er ástandið að verða þannig í heiminum að maður veit ekkert hvar þetta endar. Við hefðum getað selt orku eins og ekkert væri fyrir hálfum mánuði, mánuði, þetta er kannski allt að breytast. Sama getur gerst með okkar helstu afurð, fiskinn, það getur orðið verðfall á honum. Það er grundvallaratriði að ástandið í heiminum fari að skána í efnahagslegu tilliti.