140. löggjafarþing — 17. fundur,  3. nóv. 2011.

uppbygging Náttúrugripasafns Íslands á Selfossi.

81. mál
[17:39]
Horfa

Flm. (Árni Johnsen) (S):

Virðulegi forseti. Síðan 1896 eða þar um bil hafa Íslendingar reynt að setja á stofn Náttúrugripasafn Íslands. Það er ekki enn þá komið á koppinn þó að nokkuð sé liðið á annað hundrað ár síðan þessi metnaðarfulla hugmynd var sett fram.

Í landi eins og Íslandi sem státar af ótrúlegri fjölbreytni í náttúru, jarðfræði, fuglaríki, fiskum og gróðri norðursins er með ólíkindum að við skulum ekki vera búin að koma okkur upp Náttúrugripasafni Íslands. Um tíma var hluti þess staðsettur í Landsbókasafnshúsinu við Hverfisgötu en þar voru bara tekin nokkur sýnishorn af þeim þúsundum muna. Yfir 5 þús. munir sem eru til í Náttúrugripasafni Íslands eru lokaðir niðri í kössum og koffortum. Hvar liggur nú metnaðurinn í að sýna fólkinu í landinu okkar, Íslendingum og gestum sem koma til landsins, að sýna náttúruna samandregna með svipmyndum og hlutum sem eru einstæðir?

Nýverið var byggt glæsilegt hús í Garðabæ fyrir Náttúrufræðistofnun Íslands sem er ef ég man rétt með 60–70 starfsmenn. Það er vel, þar er góð rannsóknaraðstaða, þar er góð geymsluaðstaða fyrir hluti sem þurfa sérstakar aðstæður, bæði miðað við hita- og rakastig, en safnið sjálft, djásnið um hálsinn, er ekki til. Og það er alveg sýnt að í náinni framtíð verður Náttúrugripasafn Íslands ekki reist nema menn finni hagkvæma leið til þess.

Það þarf ekkert minnismerki yfir íslenska náttúru í safnbyggingum. Minnismerki íslenskrar náttúru er náttúran sjálf og þeir hlutir sem eiga að vera í safninu. Þar er djásnið dýra, safírarnir og perlurnar sem við getum státað af úr minjaríki okkar. Það er því mikil ástæða til að skoða hvar húsakostur kunni að vera sem getur hýst Náttúrugripasafn Íslands án þess að það kosti milljarða króna. Því er tillaga þessi sett fram og beint að Selfossi því að þar eru fleiri en eitt mannvirki sem gætu hýst Náttúrugripasafn Íslands með glæsibrag.

Besta dæmið er byggingarnar sem eru tengdar Hótel Selfossi við brúna. Þar er 5–6 þús. fermetra rými og það er talið henta fyrir safn af þessari stærð sem liggur nú í kössum hér og þar í kjöllurum í Reykjavík, á Akureyri og víðar. Þess vegna er mikilvægt að bretta upp ermarnar, virðulegi forseti, hnykkja á þessu og setja sér markið að opna þetta safn sem yrði — rétt að nefna það — sjálfbært á nokkrum árum. Það er alveg klárt að ef þessir 5 þús. sýningarhlutir komast í eðlilega sýningarstöðu munu tugþúsundir ferðamanna sækja safnið heim og það mundi reka sig sjálft.

Doðinn hefur riðið um hlöð í þessu máli og menn eru svo verkkvíðnir að þeir stinga sér frekar undir sængina sína og lúra á koddanum en að ganga til verka og gera það sem þarf. Þessi tillaga er í þá átt að ganga til verka, virða leikgleðina, nýta möguleika sem við höfum til þess að byggja upp með reisn og sóma Náttúrugripasafn Íslands.