148. löggjafarþing — 17. fundur,  25. jan. 2018.

ÖSE-þingið 2017.

87. mál
[13:01]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er erfitt að svara þeirri spurningu hvers vegna Íslendingar eru ekki þarna núna. Ég hygg að það hafi verið 2013 frekar en 2014 sem Íslendingur, Stefán Haukur Jóhannesson, nú sendiherra í London, starfaði í Úkraínu. Hann var staðsettur í Kiev, gegndi þar yfirmannsstöðu tengdu þessu verkefni. Umræðan á þinginu var hins vegar meira um öryggi þessara eftirlitsaðila, hvernig tryggja mætti öryggi þeirra. Það er ekkert svo langt síðan eftirlitsmaður var myrtur á þessum slóðum. Umræðan snerist mjög mikið um það. Í sjálfu sér eru ekki neinar lausnir á því hvernig best er að tryggja öryggi eftirlitsaðila. Menn taka þó sjálfsögðu upp viðræður við báða aðila og óska eftir því að öryggi þessara aðila sé tryggt með fylgdarsveitum og þess háttar. En umræðan var meira og minna á þessum nótum, ef ég má leyfa mér að afgreiða það með þeim hætti.

Það er hins vegar rétt hjá hv. þingmanni að það mætti gera því betri skil í skýrslunni. Ástandið í Úkraínu, átökin þarna á milli, eru fyrirferðarmikil í umræðunni, en það er ekki endilega þannig að allir taki þátt í umræðunum. Það eru ákveðnir hópar að ræða þetta, en ég held að ef við gætum sanngirni þá komi það helsta fram í skýrslunni um þetta mál. En það má eflaust alltaf gera betur.