148. löggjafarþing — 17. fundur,  25. jan. 2018.

dánaraðstoð.

91. mál
[15:10]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur, málshefjanda í þessu máli, fyrir að koma með þetta málefni hingað til umræðu. Það er mjög mikilvægt að við ræðum þetta og að upplýsinga sé aflað. Þó að mér finnist það þá er ég ekki þar með að segja að ég sé endilega sammála þeirri hugsun eða hugmynd sem liggur að baki, þ.e. að heimila dánaraðstoð með þeim hætti sem hefur oft verið talað um hér á Íslandi.

Ég held að í greiningu eins og þingmaðurinn er að tala um skipti miklu máli, og mig langar að spyrja hana að því hvort slík könnun hafi verið gerð, hvort munur er á því hvernig uppbygging heilbrigðiskerfa er og kostnaðarþátttaka í heilbrigðiskerfum, hvort munur sé á áhuga fólks á dánaraðstoð eftir því; hvort meiri áhugi sé hjá notendunum, ætli maður verði ekki að segja það í þessu tilliti, í heilbrigðiskerfum þar sem greiðsluþátttaka sjúklinga er há eða ef almannatryggingakerfi er ekki til staðar eins og til að mynda í Bandaríkjunum. Þar hefur þessi umræða verið mjög hávær og þessi réttindi. Ég hef starfað sjálfur í því kerfi sem þar er og þekki fjölmörg dæmi þess að rætti hefur verið um hvort sjúklingur eða aðstandendur hans hafi verið beittir þrýstingi í þessu tilliti.