153. löggjafarþing — 17. fundur,  17. okt. 2022.

ályktun Evrópuráðsþingsins vegna Rússlands.

[15:19]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Ályktun Evrópuráðsþingsins um viðbrögð við aukinni stigmögnun árásarstríðs Rússlands gegn Úkraínu var samþykkt samhljóða af Evrópuráðsþinginu í Strassborg síðastliðinn fimmtudag. Þessi ályktun er merkileg og söguleg fyrir margar sakir. Þar má m.a. finna ákall um að aðildarríki Evrópuráðsins lýsi því yfir að ríkisstjórn Rússlands sé hryðjuverkaríkisstjórn. Þar má líka finna ákall um leiðtogafund aðildarríkja Evrópuráðsins. Hann væri þá sá fjórði sinnar tegundar, verði af honum, og þar sem Ísland er að fara að taka við formennsku í ráðherraráði Evrópuráðsins — þetta tungutak hjálpar okkur nú ekki að gera okkur skiljanleg — má gera ráð fyrir því að mögulega verði þessi leiðtogafundur haldinn á Íslandi. Það væri líka söguleg stund. Þar sem var mikilvægt í þessari skýrslu var að þar var kallað eftir því að þessi leiðtogafundur, sem er mjög skýrt ákall eftir innan Evrópuráðsins, fjalli að stóru leyti um hvernig megi draga Rússland, leiðtoga í Rússlandi og stríðsglæpamenn, þá sem hafa staðið að stríðsglæpum, glæpum gegn mannkyni í Úkraínu, til ábyrgðar; að þetta taki mikið pláss í dagskrá leiðtogafundarins. Og hann gæti, eins og ég segi, orðið hér á Íslandi. Sömuleiðis er ákall eftir því að stuðningur við Úkraínu og hvernig megi best styðja við Úkraínu taki mikið pláss á þessum fundi. Ég samþykkti þetta ásamt öllu Evrópuráðsþinginu samhljóða. Þar með er það orðið ákall til allra aðildarríkjanna að setja þetta á dagskrá.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra, þar sem hún mun gegna formennsku í ráðherraráðinu, hvort hún taki undir að það sé mikilvægt að þetta fái mikið pláss á dagskránni og hvernig hún sæi það fyrir sér, hvort sem leiðtogafundurinn verður hér á landi eða ekki, og hvort hún muni beita sér fyrir því að þetta verði fyrirferðarmikið á leiðtogafundinum.