154. löggjafarþing — 17. fundur,  18. okt. 2023.

almannatryggingar.

20. mál
[16:22]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum hér enn og aftur að mæla fyrir frumvarpi Flokks fólksins um breytingu á lögum um almannatryggingar (fjárhæðir fylgi launavísitölu). Auðvitað er alveg stórfurðulegt að við skulum vera að biðja löggjafann um að fara að lögum, svona einu sinni, en við erum ekki að gera það einu sinni heldur í fjórða, fimmta eða sjötta skiptið, a.m.k. fimmta skiptið. Það sýnir eindreginn brotavilja ríkisstjórnarinnar og löggjafans.

Við erum enn einu sinni að fjalla um frumvarp til laga frá Flokki fólksins um að fjárhæðir fylgi launavísitölu. Ríkisstjórnir undanfarinna ára hafa beitt ótrúlegum blekkingum til að hækka ekki bætur almannatrygginga eins og önnur laun hafa hækkað, samkvæmt launavísitölu. Þær hafa notað ranga neysluvísitölu þegar þeim hentar og með einhverjum fáránlegum útreikningum hafa þær náð því með því að stórauka kjaragliðnun undanfarinna ára eða áratuga. Þegar neysluvísitalan ætti að hækka á þessu ári um 10,6% þá notar ríkisstjórnin þessi ótrúlegu bellibrögð og hækkar bætur almannatrygginga samkvæmt fjárlögum um 4,9%, hókus pókus, og með þessum brellum hverfa heil 6% í hækkun. Þeir ættu kannski frekar að vera í sirkus en löggjöf.

Við upphaf staðgreiðslu 1988, þegar staðgreiðsla var tekin upp, voru lægstu bætur almannatrygginga skattlausar og fólk átti eftir allt að 30% af persónuafslætti til að nota t.d. fyrir lífeyrissjóðsgreiðslur eða aðrar tekjur. Hugsið um það. Síðan þá hefur kjaragliðnunin og fjárhagslega ofbeldið tekið á sig óhugnanlega mynd. Í dag eru lægstu lífeyrislaun almannatrygginga langt frá því að vera skattlaus. Þeir sem eru á lægstu bótum almannatrygginga eiga að borga frá 45.000 og upp í 70.000 kr. í skatt og eiga ekki 30% afgang af persónuafslætti upp í eitt eða neitt annað, eins og var hérna 1988 við upphaf staðgreiðslu.

Á mannamáli er staðreyndin sú að í dag vantar vel á annað hundrað þúsund krónur eftir skatt á mánuði inn í flokk almannatrygginga. Það stendur skýrt í 62 gr. laganna, sem áður var 69 gr., að miða skal við launavísitölu en eingöngu neysluvísitölu ef hún er hagkvæmari. Þetta hefur aldrei verið gert og fáránleikinn liggur í því að frítekjumörk og persónuafsláttur hafa ekki heldur fylgt vísitöluhækkunum. Með því að taka allt úr sambandi hefur ríkisstjórn eftir ríkisstjórn tekist að halda fólki í sárafátækt. Stór hópur fólks hefur ekki efni á að borga 2.000 kr. í dag aukalega fyrir t.d. sjúkraþjálfun. Svona fjárhagslegt ofbeldi er óþolandi og þess vegna höfum við í Flokki fólksins lagt fram frumvarp um 400.000 kr. skatta- og skerðingarlaust. Ef við uppreiknum þetta frá 1988 þá er það upphæðin sem ætti að vera að greidd út í dag. Hvar liggur munurinn? Jú, munurinn liggur í því að persónuafsláttur hefur ekki hækkað, kjaragliðnunin hefur verið látin viðgangast og þannig hefur þeim tekist með auknum skerðingum að búa til þetta bil.

Það er löngu kominn tími til þess að okkar verst setta fólk bíði ekki lengur eftir réttlætinu. Það á ekki að bíða einn dag lengur eftir réttlætinu því að þeirra tími er löngu kominn. Við höfum því miður rekið okkur á það að ríkisstjórnin fer ekki að lögum. Hún hækkar ekki samkvæmt launavísitölu, hún hækkar ekki frítekjumörk, styrki, bifreiðastyrki eða neitt eins og lög gera ráð fyrir, heldur lækkar lífeyrislaunin jafnt og þétt vegna kjaragliðnunar. Hugsið ykkur leikþáttinn og óvirðinguna. Ríkisstjórnin beitir brellum til að búa til eitthvað til að sleppa við að hækka samkvæmt lögum þá sem eru á lægstu lífeyrislaunum í landinu. Hún beitir brellum til að koma í veg fyrir að fólk sem er að reyna að tóra á 250.000 kr. útborguðum eftir skatt fái 400.000 kr. skatta- og skerðingarlaust í dag eins og það ætti að vera. Þarna munar heilum 150.000 kr. sem þeir hafa náð með brellum að hafa af veiku fólki og öldruðu.

Inn í þetta kemur líka að eftir bankahrunið lækkuðu Samfylking og Vinstri græn lífeyrislaun almannatrygginga um 10% og lofuðu leiðréttingum strax ef betur áraði. En það var auðvitað svikið. Það er hluti af þessari kjaragliðnun. Þá hafa þeir oft lofað fögrum orðum um brottfall krónu á móti krónu skerðingum, en settu þær inn í búsetuskerðingarnar og lækkuðu þær niður í 65 aura á móti krónu. Það var nú öll gjafmildin, sérstaklega með þessa sérstöku uppbót sem er alger bölvun í almannatryggingakerfinu. Það hefði verið nær að festa hana í grunnlífeyrinum og hætta þessum leikþætti með skerðingarnar, bæði á sérstöku uppbótinni en líka á heimilisuppbótinni og fleiri hlutum. Þótt það yrði gert myndi það samt ekki ná upp í það að fylgja launaþróuninni.

Þetta er ömurlegt kerfi sem hefur verið komið á og er varið af ríkisstjórn eftir ríkisstjórn. Við verðum að breyta því. Það á ekki að koma svona fram við veikt fólk og aldrað fólk, alls ekki. Við vitum að margir hafa það gott en það afsakar ekki að aðrir hafi það skítt í boði ríkisstjórnarinnar. Viðmiðunin á að vera við laun en engu að síður er settur annar lás sem á að gæta þess ef svo vildi til, sem við skulum vona að verði ekki á næstu árum, að launin hækki minna en verðlag eins og hefur nú komið fyrir. Það er auðvitað stórfurðulegt, ef maður fer að hugsa út í það, hvernig þeir hafa sett þetta upp miðað við að það ætti að vera skýrt og skorinort, eiginlega í samfestingi og með belti og axlabönd, að tryggt væri að ríkisstjórnin færi að lögum og myndi hækka samkvæmt launavísitölu eða launaþróun. En einhvern veginn tekst henni það ekki.

Áðan var verið að ræða það sem við ætlum að mæla fyrir á morgun, frumvarp til laga um breytingu á lögum um frítekjumark vegna lífeyristekna, úr 25.000 kr. í 100.000 kr. Þetta er engin ofrausn. Ég held það hafi verið árið 2009 sem 25.000 kr. frítekjumarkið var sett á. Ef það væri uppreiknað samkvæmt vísitölunni þá væri það sennilega milli 40 og 50.000, svo að ég tali nú ekki um launaþróun; þá yrði það enn þá hærra. Þetta sýnir hvernig þeir fara að þessu. Þeir setja inn einhverja tölu og hreyfa svo ekki við henni í fjölda ára. Það þýðir lækkun. Ef þeir meina eitthvað virkilega vel þá ættu þeir að segja: Við ætlum að hafa 25.000 kr. frítekjumark sem hækkar að lágmarki samkvæmt neysluvísitölu á hverju ári og jafnvel samkvæmt launavísitölu, sem væri enn þá betra ef hún væri hærri. En það gera þeir ekki.

Við vorum líka að tala um þær skerðingar sem koma fram í kerfinu. Við verðum að átta okkur á því hvers lags ótrúlegt fjárhagslegt ofbeldi skerðingarnar eru orðnar í þessu almannatryggingakerfi. Ég lagði fram fyrirspurn um það hvernig staðan væri og hvernig skerðingarnar kæmu út og staðreyndirnar liggja alveg fyrir. Á blaði sem ég er með, sem allir geta séð eða fundið á heimasíðu minni hjá Alþingi eða annars staðar í svörum, kemur skýrt fram að árið 2020 voru skerðingar á ellilífeyri 42 milljarðar og 468 milljónir, þetta var bara fyrir ellilífeyririnn árið 2020. Árið 2021 voru þetta 48 milljarðar og 135 milljónir. Þarna hefur strax verið hækkað um 6 milljarða, bara fyrir ellilífeyrinn. Árið 2022 var þetta 51 milljarður og 319 milljónir. Þarna hefur verið hækkað um 3 milljarða. Þetta sýnir okkur hvað er í gangi. Ef við tökum heildina, þ.e. örorkulífeyri, ellilífeyri, endurhæfingarlífeyri, örorkustyrk, tekjutryggingu, aldurstengda örorkuuppbót, heimilisuppbót ellilífeyris, heimilisuppbót örorku- og endurhæfingarlífeyris, sérstaka uppbót til framfærslu sem ég var að tala um áðan — bara hún ein veldur árið 2020 6 milljarða kr. skerðingu í kerfinu. Árið eftir er hún komin í 7 milljarða, hækkar um heilan milljarð. Árið þar á eftir er hún komin í 8 milljarða. Aftur er hækkunin upp á heilan milljarð. Sjáið þið mynstrið? Ef við tökum alla heildina í dag þá eru skerðingarnar árið 2020 62 milljarðar, 70 milljarðar árið 2021, 8 milljörðum hærri, og 75 milljarðar árið 2022, 5 milljörðum hærri. Þetta er það sem ríkisstjórnin er að gera. Þetta er þeirra réttlæti, að rétta fólki með annarri hendinni, taka með hinni og segja svo við fólk: Þið fenguð svo mikið. Þið megið þakka fyrir að fá öll þessi ósköp.

Síðan gleymist líka það sem sýnir sömuleiðis fáránleikann í þessu kerfi, sem er hreinlega hægt að sjá hjá Tryggingastofnun ríkisins. Þar stendur skýrum stöfum, með leyfi forseta:

„Um 74% lífeyrisþega, eða um 49 þúsund einstaklingar, fengu ofgreitt og þurfa að endurgreiða í samræmi við það, frá og með 1. september nk. Meðaltal þeirra sem skulda er tæplega 164.000 kr.“

Þetta eru 8 milljarðar 36 milljónir sem þau eiga að borga til baka. Sjáið þið samhengið í þessu öllu? Þessir 8 milljarðar koma hvergi fram í tölum þegar verið er að sýna fram á hversu gífurlegar hækkanir hafa orðið í kerfinu þegar fjármálaráðherra og ríkisstjórnin koma fram og segja: Við settum alveg svakalega mikið inn í kerfið, heil 10% á síðasta ári. En þessi 8 milljarða endurgreiðsla kemur hvergi fram. Þá á eftir að draga hana frá þessum 10%, auk skatta og annarra skerðinga.

Þetta sýnir okkur svart á hvítu að ríkisstjórnin er ekki að hugsa á nokkurn hátt um hag fólks. Við verðum að átta okkur á því að það eru sérstök frítekjumörk á öllum hlutum í þessu stórfurðulega kerfi, eins og hefur líka komið fram í svari félags- og vinnumarkaðsráðherra til mín. Þar kemur líka fram að fyrir ellilífeyri almennt, eins og við vorum að tala um, er 25.000 kr. frítekjumark en skerðingin er 45%. Fyrir heimilisuppbótina er 25.000 kr. frítekjumark en 11,9% skerðingar. Á örorkulífeyri eru 38,35% skerðingar. Sérstaka uppbótin er komin upp í 65% skerðingar. Við erum líka með aldurstengdu uppbótina þar sem eru 25% skerðingar eftir ákveðna upphæð; 25% skerðingar eru á endurhæfingarlífeyri. Þetta er alveg endalaust í þessu kerfi. Það er alveg með ólíkindum að við skulum vera með svona stórfurðulegt kerfi þar sem þarf að búa til heilt tölvukerfi bara til þess að halda utan um það hvernig skerðingarnar fara fram. Það er ekki lengur fyrir nokkurn mann að ráða í kerfið. Bútasaumurinn er svo gjörsamlega orðinn algjör að það hefur enginn yfirsýn yfir þetta skrímsli. Það verður því bara að treysta á gervigreindina í tölvum til þess að reikna út hvort hlutirnir séu réttir, og hún segir annaðhvort já eða nei. Síðan ef fólk lendir í því að fá nei þá á það að verða að lögfræðingi og kæra úrskurðinn til úrskurðarnefndar velferðarmála. Því miður, eins og ég segi, er ég hræddur um að enn eina ferðina muni þessi ríkisstjórn brjóta lög og ekki hækka bætur eins og lög gera ráð fyrir.