154. löggjafarþing — 17. fundur,  18. okt. 2023.

ávana- og fíkniefni.

102. mál
[16:52]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Forseti. Við hjálpum fólki ekki með því að refsa því. Það er mikilvægt og verður æ mikilvægara að vinda ofan af þeirri ómannúðlegu refsistefnu sem hefur verið hér við lýði í tugi ára, vinda ofan af þeirri þjáningu sem þessi stefna hefur valdið, lífunum sem hafa tapast og þeim kostnaði sem hefur hlotist fyrir samfélagið allt.

Það hefur komið fram í máli fólks sem berst fyrir þessu máli að það sé orðið þreytt á að endurtaka sig. Við erum orðin þreytt á að endurtaka okkur. Það verður sérstaklega þreytandi að endurtaka sig, held ég, þegar verið er að endurtaka hluti sem engan greinir í rauninni á um. Málið sem við erum að ræða hér er nokkuð sem er algerlega sjálfsagt að flestra mati sem vilja raunverulega leysa vandann og þekkja til. Við erum ekki að leysa rétt vandamál með þessu og í rauninni ekki að leysa neitt vandamál með núverandi kerfi.

Skaðaminnkun, sem er nokkuð sem ég held að öll séu sammála um að sé mikilvæg, og mikilvægt að sé í boði, snýst um að viðurkenna að fólk mun nota vímuefni hvort sem okkur líkar betur eða verr. Eins og við vitum og sjáum á þeim tölum og þeirri tölfræði sem hv. þm. Halldóra Mogensen fór t.d. yfir hérna áðan þá er refsilöggjöfin ekkert að koma í veg fyrir það að fólk neyti vímuefna. Hugmyndafræði skaðaminnkunar krefst þess hins vegar að við horfumst í augu við raunveruleikann og setjum lög og reglur í samræmi við hann vegna þess að okkur er annt um fólk og það skiptir okkur máli sem samfélag að koma í veg fyrir dauðsföll. Það gerum við með því að tryggja aðgengi að skaðaminnkandi úrræðum en forsenda þess að hægt sé að fara í skaðaminnkandi úrræði að nógu miklu marki er að við hættum að nota refsingar til að leysa vanda sem er í grunninn félagslegur.

Hugmyndafræði skaðaminnkunar neyðir okkur til að hugsa lengra, horfa dýpra og þegar við áttum okkur á áföllunum sem liggja að baki vímuefnavanda fólks skiljum við hversu mikil vanþekking og hversu miklir fordómar felast í því að refsa vímuefnaneytendum. Það er ekki einungis mannúðlegri nálgun til að nálgast vandamálin að leita að rótum þeirra heldur hefur verið sýnt fram á það á ýmsum sviðum og í ýmsum skilningi að hin skilningsríka nálgun, að leita uppi rót vandans, er mun líklegri til að hafa áhrif til árangurs.

Refsing er ein tegund ofbeldis. Í henni felst valdbeiting, nauðung, jafnvel líkamleg nauðung, með því að loka fólk inni og sums staðar er líkamlegu ofbeldi jafnvel beitt sem refsingu þó að við séum nú að mestu leyti hætt því hér á landi — að mestu leyti. En þrátt fyrir að við vitum betur, að ofbeldi sé gagnslítil og vond leið til þess að leysa ágreining og hafa áhrif á hegðun fólks, er það oft einhvern veginn enn þá það eina sem okkur dettur í hug. Ég veit að þau sem eru enn þá hlynnt refsistefnunni bera hag vímuefnaneytenda fyrir brjósti, sannarlega, en sjá ekki aðra lausn.

Ég ætla ekki að útiloka það að við séum enn þá á þeim stað að stundum sé einhvers konar valdbeitingar þörf í samfélaginu til að stýra hegðun fólks, t.d. til þess að vernda annað fólk, en það gerist þegar öll önnur úrræði þrýtur, þegar við sjáum ekki aðra lausn og stundum er það þannig. En við ættum að vera búin að læra að ofbeldi, valdbeiting og refsingar eru ekki úrræði heldur úrræðaleysi. Stríðið gegn vímuefnum er stríð gegn fólki; fólki sem kýs að nota önnur vímuefni en þau sem eru seld í vínbúðinni og á barnum.

Nauðsyn þess að afglæpavæða vímuefni hefur orðið skýrari. Hún er skýrari með hverjum deginum sem líður og ég ætla ekki að endurtaka allt það sem kom fram í máli hv. þm. Halldóru Mogensen áðan, þær tölur sem sífellt bætast við. Það er ekki eins og þörfin fari minnkandi með árunum, bæði með aukinni vanlíðan í samfélaginu og öðru og þeim úrræðum sem fólk leitar að við því en líka með þekkingu okkar. Við vitum miklu meira um orsakir hegðunar fólks heldur en endurspeglast í kerfinu sem við höfum byggt hérna upp. Það ætti því að vera orðið öllum ljóst, og ég held að það sé nú langflestum ljóst, að núverandi stefna sem gengur út á að banna vörslu vímuefna er í besta falli gagnslaus og í versta falli stórskaðleg.

Fíkn er ekki eitthvað sem fólk velur sér. Fíkn er ekki siðferðis- eða skapbrestur. Hún er ekki heldur afleiðing slæms innrætis eða agaleysis. Ég ljáði máls á því í hópi fólks um daginn hvað það hefði komið mér á óvart hversu lítil viðbrögð það vekur þegar maður ber saman tölur yfir einstaklinga sem látast vegna lyfjaeitrana miðað við t.d. þann fjölda sem deyr í bílslysum eða á annan hátt. Fyrir nokkrum árum fjölgaði dauðsföllum í umferðinni mjög hratt og það var farið í algjört átak. Það var farið í átak og þeim hefur farið fækkandi síðan. Það var farið í átak til að koma í veg fyrir dauðsföll í umferðinni og ég hugsaði með mér: Af hverju stuðar það fólk ekki jafn mikið þegar maður segir að það séu 30, 40, 50 manns sem deyja, ungt fólk sem deyr — bara lífið er búið — á ári hverju vegna lyfjaeitrana? Þá var mér bent á það að hvort sem það er viljandi eða ekki þá lítum við kannski mörg svo á að það sé þeim að kenna. Það er að einhverju leyti undirliggjandi viðhorf sem við erum enn að vinna við að uppræta og skapar ákveðna fordóma í samfélaginu. Fordómar eru ekkert alltaf viljandi en eru líka grunnurinn að þessari refsistefnu. Refsistefnan og refsing í eðli sínu til að stýra hegðun fólks byggir á þeirri forsendu að fólk sé að velja að gera þetta frekar en eitthvað annað. Refsingunni er ætlað að fá þau til að velja að gera hitt og þar með er í rauninni verið að líta fram hjá því hvaða val fólk raunverulega hefur og hvers vegna; hvers vegna það velur að gera það sem það gerir.

Fíkn er ekki hægt að lækna með refsingum, með aukinni þjáningu. Þvert á móti er fíkn viðbragð við þjáningu í mörgum tilvikum. Það er eðlilegt að við reynum að flýja þjáningu. Þegar okkur verkjar fáum við okkur verkjalyf. Okkur þykir það sjálfsagt. Þegar fólk þjáist andlega, t.d. sökum áfalla sem hvergi fæst aðstoð við — sem er annað sem hefur komið mér á óvart eftir að hafa verið að kynna mér heilbrigðiskerfið á síðustu vikum, það er í rauninni engin áfallameðferð í boði á mörgum stöðum þar sem hún ætti í rauninni að vera fyrsta skrefið — þá sækir fólk í aðrar leiðir til að deyfa sársaukann. Í stað þess að aðstoða manneskjuna þykir okkur sjálfsagt að refsa henni með því að taka af henni lyfin, sem er náttúrlega refsing í sjálfu sér, hvað þá að sekta eða mögulega fangelsa manneskjuna. Nei, samfélagið ætlar að aðstoða þessa manneskju með því að gera hana að glæpamanni, jaðarsetja hana, telja henni trú um að hún hafi valið rangt í lífinu og sé gölluð. Þetta er ekki það sem fólk þarf á að halda þegar það er í vandræðum og vanlíðan.

Málið sem við erum að ræða hérna núna er fyrir löngu síðan orðið sjálfsagt mál, byggt á þeirri þekkingu sem við höfum og þeirri reynslu sem komin er á núverandi kerfi sem er ekki að virka. Ég trúi því að það sé samstaða um þetta mál hér á þinginu og það hefur svo sem verið mín tilfinning. Fyrir réttum sléttum tíu árum síðan þegar Píratar ljáðu máls á þessu upphaflega, í formi tillögu um að skoða þetta, þá þótti þetta róttæk hugmynd og algerlega út úr kortinu. En ég veit ekki betur en að skaðaminnkun og það að hverfa frá refsistefnu í vímuefnamálum sé orðið hluti af stefnu meira og minna allra stjórnmálaflokka á Íslandi í dag og umræðan hefur opnast. Við vitum betur og við eigum að gera betur.