132. löggjafarþing — 18. fundur,  9. nóv. 2005.

Kanínubyggð í Vestmannaeyjum.

104. mál
[15:18]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Magnús Þór Hafsteinsson) (Fl):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. umhverfisráðherra fyrir að mörgu leyti ágætt og greinargott svar. Það kemur í ljós að hér er á ferðinni alvarlegt umhverfisvandamál því að einhver hlýtur mergðin af þessum dýrum að vera á Heimaey fyrst þar eru veidd árlega 600–700 dýr. Ég held að öllum hljóti að vera ljóst að þessi dýr sem við vitum að eru þeirri náttúru gædd að geta fjölgað sér mjög hratt geta valdið mjög miklu tjóni á skömmum tíma.

Það hefði glatt mig að heyra ef hæstv. umhverfisráðherra hefði lýst því yfir að stjórnvöld hefðu gert meira til að rannsaka áhrif þessara aðskotadýra á íslenska náttúru. Það hefur greinilega orðið umhverfisslys þegar þessi dýr hafa sloppið út í náttúruna og náð að fjölga sér og þau eru farin að valda tjóni á verðmætum og einstökum fuglabyggðum í grennd við þéttbýlið. Það er ljóst að hér þurfa menn að vera mjög vel á verði og þetta þarf að rannsaka vel og fylgjast vel með því hvað gerist þegar svona lagað á sér stað.

Við vitum að aðskotadýr hafa áður valdið miklu tjóni í íslenskri náttúru. Þar er helst að nefna minkinn á sínum tíma. Það setur líka að manni ákveðinn ugg hvað gæti gerst ef þessi dýr, þ.e. kanínur mundu sleppa út á öðrum stöðum þar sem fuglalíf er ríkt og einstakt, til að mynda á fuglaeyjum umhverfis Ísland. Ég gæti nefnt Flatey á Breiðafirði, Skrúðinn eða aðrar eyjar umhverfis landið. Þar gætu þessi dýr valdið miklu tjóni ef þau slyppu út og samfara hlýnandi loftslagi og öðrum hagstæðum aðstæðum þá gæti orðið erfitt að losna við þau.

Ég vil því nota tækifærið að lokum til að hvetja stjórnvöld til að hika ekki við að grípa til aðgerða gegn þessum dýrum en jafnframt að stunda góðar rannsóknir á því sem virkilega er að gerast.