148. löggjafarþing — 18. fundur,  30. jan. 2018.

félagsleg undirboð og svik á vinnumarkaði.

[15:01]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka fyrir umræðuna sem hefur verið gríðarlega góð. Mig langar að koma inn á nokkur atriði. Þessi frumvörp eru væntanleg til þingsins á næstum vikum. Sá sem hér stendur sagði að þau færu í stutt umsagnarferli, við gerum ráð fyrir því. Einmitt vegna athugasemda sem komu m.a. fram hjá hv. þm. Halldóru Mogensen sem snúa að persónuvernd og öðru hafa frumvörpin tekið breytingum. Okkur fannst rétt að setja þau í vikulangt umsagnarferli í framhaldinu og síðan koma þau til þingsins og það á vonandi að geta gerst á næstu vikum.

Frumvörpin taka á því sem ég kom inn á sem snýr að starfsmannaleigunum. Þau taka líka á keðjuábyrgðinni og fleiri þáttum, rétt eins og ég kom inn á í framsögu minni. Það er því gríðarlega mikilvægt, og ég tek undir með þingmönnum sem hafa tjáð sig um það, að þessi mál komi sem fyrst inn í þingið. Það stendur ekki annað til. Hins vegar hafa frumvörpin tekið breytingum vegna þess að stjórnvöld hafa verið í samráði m.a. við aðila vinnumarkaðarins, verkalýðshreyfinguna og stéttarfélögin um breytingar á málunum. Við höfum tekið tillit þeirra sjónarmiða sem þar hafa komið fram. Það töldum við rétt að gera áður en frumvörpin kæmu inn í þingið.

Ég vil líka taka undir þeim sem hér hafa talað um mikilvægi þess að auka eftirlit í þessum málaflokki. Ísland hefur verið að dragast aftur úr hvað það snertir, ekki vegna þess að við höfum verið að draga úr fjárveitingum heldur vegna þess að miðað við fjölda erlends starfsfólks á vinnumarkaði hefur hlutfallið sem við eyðum í eftirlit, bæði til Vinnueftirlitsins, Vinnumálastofnunar, ríkisskattstjóra og fleiri aðila, verið að lækka.

Í því sambandi langar mig að segja, til að undirstrika mikilvægið og taka undir með þeim sem hafa talað, að árið 2014 var ein starfsmannaleiga skráð á Íslandi. Árið 2017 eru þær 36. Árið 2017 eru 12,4% af þátttakendum á vinnumarkaði erlendir ríkisborgara en voru 8,2% 2012. (Forseti hringir.) Þessi aukning kallar auðvitað á gjörbreytta (Forseti hringir.) lagaumgjörð og auknar fjárveitingar til þessa málaflokks. Sá sem hér stendur (Forseti hringir.) tekur undir það með öllum þeim þingmönnum sem hafa tjáð sig um þessi mál í dag.