137. löggjafarþing — 18. fundur,  11. júní 2009.

nauðsynlegar aðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

88. mál
[16:30]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil í lok þessarar umræðu þakka fyrir hönd okkar sjálfstæðismanna fyrir það hvernig umræðan fór fram. Hún var málefnaleg og uppbyggileg og ég held að hún hafi lagt gott til í þá umræðu sem þarf að fara fram hér um stjórn efnahagsmála.

Við leggjum áherslu á að þær aðgerðir sem gripið verður til á næstunni, sem snúa bæði að heimilunum, fyrirtækjunum, bönkunum og ríkissjóði, séu markvissar og að ráðist verði í þær án tafa vegna þess að vandinn fer vaxandi með hverjum deginum sem líður. Við vissum í upphafi að nokkrar hugmyndir mundu verða umdeildar, samanber hugmynd okkar um breytingu á skattlagningu lífeyrissjóðanna eða öllu heldur tilfærslu á skattlagningu, en um leið þarf að horfa til þess að sá vandi sem uppi er hvað varðar ríkisfjármálin er það magnaður og stór að ábyrgðarlaust væri að horfa ekki til allra þeirra möguleika og kosta sem í boði eru. Þetta er einn af þeim og við vildum vekja athygli á honum.

Jafnframt höfum við útfært hugmyndir sem snúa að greiðsluvanda heimilanna, hugmyndir sem við teljum að hafi þann kost að vera manneskjulegar, einfaldar og fljótlegar og eigi að geta nýst flestum ef ekki öllum sem eru í alvarlegum greiðsluvandamálum þó að við á sama tíma gerum okkur einnig grein fyrir að það er ekki víst að hægt sé að hjálpa öllum með þeirri aðferð. Því opnum við á að það sé skoðað hvort hægt sé að fara einhvers konar niðurfærsluleið á höfuðstól þar sem það á við. Jafnframt höfum við lagt á það áherslu að gera verði allt sem hægt er til að flýta því að hægt sé að afnema gjaldeyrishöftin sem nú eru á íslensku krónunni. Í því sjónarmiði höfum við lagt fram hugmyndir, þó að það hafi ekki verið gert í þessari sérstöku þingsályktunartillögu en við gerðum það um leið og við tilkynntum hugmyndir okkar um aðferð til að leysa þann vanda sem hlýst af veru jöklabréfanna svokölluðu í hagkerfinu hér. Sú lausn lýtur að því að ríkisvaldið gefi út langtímaskuldabréf í erlendri mynt án greiðslu fyrstu árin þannig að hægt verði að bjóða eigendum jöklabréfanna upp á þann kost og eyða þar með þeirri óvissu sem er um það hvenær þessir peningar leita út úr hagkerfi okkar sem gerir það að verkum að það er nánast ógerningur að afnema gjaldeyrishöftin nú þegar. Með öðrum orðum, við höfum bæði lagt fram almenn sjónarmið en um leið líka útfærðar tillögur á því hvernig ná megi þeim markmiðum sem við setjum fram í tillögu okkar.

Við erum mjög ánægð með það hversu vel ríkisstjórnarflokkarnir hafa tekið þessum tillöguflutningi og við væntum þess að tekið verði tillit til þessara hugmynda og þessara tillagna í þeirri vinnu sem nú er í gangi og mun fara fram hér á næstu dögum og vikum. Við hvetjum ríkisstjórnina til að flýta allri vinnu hvað þetta varðar, hvað varðar efnahagstillögurnar, það má engan tíma missa.

Það er rétt sem hæstv. forsætisráðherra sagði á dögunum í blaðaviðtali: „Vandi ríkissjóðs er meiri en menn ætluðu.“ Það er vegna þess að með hverjum deginum sem líður, þar sem skattstofnarnir dragast saman, þar sem tekjur ríkisins verða fyrirsjáanlega minni, þar sem erfiðleikarnir aukast, það leiðir auðvitað til þess að vandi ríkissjóðs verður meiri, augljóslega. Því ríður á að við náum niður stýrivöxtum Seðlabankans og það gerum við ekki nema við höfum náð árangri annars vegar í ríkisfjármálunum og hins vegar í endurreisn bankakerfisins. Þetta eru mikilvægir hlutir, á þessu grundvallast efnahagstillögur okkar sjálfstæðismanna, það eru þessi þættir sem við horfum til, og ég ítreka enn og aftur að við sjálfstæðismenn erum reiðubúin til þess að vinna með ríkisstjórninni í öllum þessum málum. Við gerum okkur grein fyrir því að menn munu ekki taka okkar tillögur einn, tveir og þrír og framkvæma þær allar, þannig virkar það auðvitað ekki, en þetta er innlegg okkar og með öðrum tillögum sem við teljum að standi til bóta fyrir íslenskt efnahagslíf, teljum við að hæg sé að grípa til aðgerða sem nauðsynlegt er að grípa til þannig að við snúum þessari óheillaþróun við. Það er okkar sameiginlega verkefni, það er okkar sameiginlega verkefni allra sem sitjum á Alþingi, það er okkar sameiginlega ábyrgð og þetta er innlegg til þeirra mála.

Ég ítreka enn og aftur þakkir mínar til forustu þingsins fyrir að taka þetta mál svo snemma á dagskrá. Það skiptir máli fyrir okkur að það var gert og skiptir máli upp á framtíðina fyrir þingmenn að þeir viti að þegar menn leggja á sig vinnu eins og þessa við að koma fram með svona tillögur sé möguleiki að taka slíkt til umræðu sem fyrst á hinu háa Alþingi.