145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[17:07]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég mundi kannski ekki taka svo djúpt í árinni, en ég held að óhætt sé að segja að við mundum ekki framfylgja þeim með sama hætti og áður var.

Það er margt óskiljanlegt í þessu máli. Eitt af því er að Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur beinlínis sagt að aðrar þjóðir, sérstaklega í Evrópu þar sem áfengisneysla er miklu meiri en víða annars staðar í heiminum, ættu að fara að dæmi Íslendinga, Norðmanna, Svía og Finna og setja sölu áfengis inn í ríkisstýrð batterí. Hún mælir með að farið sé að því sem við gerum vel og þá ætlum við að hætta því sem við gerum vel og fara að gera eitthvað illa. Ég skil það ekki.