154. löggjafarþing — 18. fundur,  19. okt. 2023.

staðan í efnahagsmálum.

[10:36]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Ég velti fyrir mér hvort nýja línan hjá ríkisstjórninni sé sem sagt sú að við þurfum bara að trúa því að verðbólgan fari niður og að það sé nóg að ríkisstjórnin tali nógu hátt og nógu oft um að verðbólgan muni fara niður. Fólk þarna úti er að glíma við gífurlega kaupmáttarskerðingu. Fjóra ársfjórðunga í röð hefur kaupmáttur dregist saman. Við vitum að staðan er mjög slæm hjá fólki, til að mynda á leigumarkaði, fólki á lágum tekjum. Fyrir það dugar ekkert að heyra frá ríkisstjórninni að þau trúi því að verðbólgan muni fara niður.

Í aðdraganda kjarasamninga mun aðkoma ríkisstjórnarinnar vera lykilatriði sökum þeirrar velferðarstefnu sem hefur verið stunduð hér undanfarin ár og grafið undan vaxtabóta- og barnabótakerfinu og öðrum almennum húsnæðisstuðningi. Þannig að ég spyr hæstv. ráðherra: Mun koma eitthvað nýtt út úr fjármálaráðuneytinu eftir að hún tók þar við sem mun liðka fyrir kjarasamningum?(Forseti hringir.) Eða snýst þetta bara um að ríkisstjórnin trúi á sjálfa sig?