154. löggjafarþing — 18. fundur,  19. okt. 2023.

staðan í efnahagsmálum.

[10:38]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Fyrst verð ég nú að segja að ég veit að hv. þingmaður kemur frá góðum stað með það að verkefnið sé stórt en það er auðvitað ekki alveg sanngjarnt að tala niður með þessum hætti stöðu íslensks samfélags sem er auðvitað á allan hátt með því besta sem fyrirfinnst á byggðu bóli. Það eigum við öll að vita hér. Því hef ég fundið mjög fyrir í mínum fyrri störfum. Þannig að þrátt fyrir að við séum með stór verkefni sem fjölskyldur í þessu landi finna fyrir þá er það heimatilbúið verkefni sem við munum geta leyst með heimatilbúnum lausnum ef við gerum það sem þarf.

Auðvitað er ekki nóg að segja að fólk verði að trúa því ef það fylgja ekki aðgerðir með. Þá bendi ég líka á að til að mynda allar hugmyndir um meiri háttar útgjaldaaukningu munu leiða það af sér að það verður ekki sá trúverðugleiki sem þarf til að ná tökum á verðbólgu. Vandi ríkissjóðs er ekki tekjuvandi heldur útgjaldavandi. (Forseti hringir.) Hins vegar vitum við að það mun þurfa að koma til, og verður hluti af því að ná samningum, að ríkið komi inn í það með einhverjum hætti. En verkefnið er algjörlega skýrt og (Forseti hringir.) það skiptir öllu máli að við gerum það sem þarf til þess að ná því.