141. löggjafarþing — 19. fundur,  16. okt. 2012.

menningarstefna.

196. mál
[18:47]
Horfa

Arnbjörg Sveinsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka ráðherra fyrir hversu vel hún greiddi úr og svaraði spurningum mínum sem voru á mjög víðu sviði, og ég get sagt að það eru enn margar spurningar hérna sem ég mun sleppa. Ég vona að farið verði vel yfir þetta mál í nefnd og vona svo sannarlega að nefndin taki það efni sem ég nefndi hér síðast, þ.e. samstarf og hlutverk þjóðmenningarstofnananna og hlutverk þeirra við að sinna öllum landsmönnum. Ég held að mjög mikilvægt sé að það verði skýrt að þær hafa mjög víðtækt hlutverk.

Ég nefni Listasafn Íslands, ég nefni Þjóðleikhúsið, stóru söfnin. Allt skiptir þetta máli og það er kannski ekki síst að í þeim stofnunum hefur orðið til sérfræðiþekking. Það er til dæmis mjög mikilvægt að minni söfn úti á landi geti sótt sérfræðiþekkingu til þessara stóru þjóðmenningarstofnana. Það er góð nýting á fjármunum ef maður horfir á það þannig. Og það er góð nýting á því að koma eðlilegri menningarstarfsemi út til allra landsmanna að menn geti unnið saman þar, að þessar góðu og ágætu stóru þjóðmenningarstofnanir setji sig ekki á það háan hest að þær geti ekki talað við hinar minni sem eru úti um allt land og skipta auðvitað menningarlífið í landinu ekkert síður máli en starfið innan stóru þjóðmenningarstofnananna.