152. löggjafarþing — 19. fundur,  28. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[16:20]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það segir sína sögu að hér erum við að skila ríkissjóði með 180 milljarða halla, sem er u.þ.b. 5% af vergri landsframleiðslu. Það er mikilvægt að ná jafnvægi í ríkisrekstrinum og styðja við peningastefnuna. En þrátt fyrir þennan mikla halla erum við hér með fjárlög sem styðja svo um munar við fólk og fyrirtæki og innviði okkar á komandi ári. Við erum að framlengja vinnumarkaðsúrræði og við höldum áfram að efla og styðja við nýsköpun, rannsóknir og þróun.

Hér eru líka framlög til einstakra safna og stuðningur við menningarstarfsemi víða um land, sem skiptir verulegu máli. Við erum að styrkja rekstrargrunn hjúkrunarheimila og höldum áfram að efla heilsugæsluna sem fyrsta viðkomustað og við bætum í geðheilbrigðismálin. Þessi fjárlög eru góð og þau skipta máli fyrir fólkið í landinu.