154. löggjafarþing — 19. fundur,  24. okt. 2023.

fátækt kvenna.

[13:42]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra fyrir svarið en því miður, mér finnst það svolítið rýrt vegna þess að það er enginn vandi að sjá til þess í eitt skipti fyrir öll að enginn lifi í fátækt. Við í Flokki fólksins erum með frumvarp um 400.000 kr. skatta- og skerðingarlaust. Hvernig ætlum við að fjármagna það? Jú, við ætlum að breyta persónuafsláttarkerfinu og þegar það væri komið í gegn þá erum við að tala um kostnað upp á 30 milljarða plús. En á sama tíma er verið að skerða í almannatryggingakerfinu um 80 milljarða, 80 milljarðar eru heildarskerðingar í almannatryggingakerfinu. Þar af leiðandi væri það ekki kostnaður að setja inn 33 milljarða heldur væri bara verið að skila hluta af því sem ríkið sparar sér með skerðingum.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Hvers vegna í ósköpunum er ekki eitthvað gert núna en ekki einhvern tímann, eða á að gera þetta eins og hefur verið talað um, að draga úr fátækt, draga úr skerðingum? Hvað þýðir það? Að draga það til ársins 2050, 3000, eða hvað á að draga mikið úr skerðingum? (Forseti hringir.) Einn aur, tvo aura, úr 1 kr. í 65 aura eins og var gert með krónu á móti krónu? (Forseti hringir.) Er ekki betra að taka stökkið og sjá til þess í eitt skipti að fólk lifi með reisn?