154. löggjafarþing — 19. fundur,  24. okt. 2023.

fátækt kvenna.

[13:44]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður spurði hér í fyrra innleggi sínu út í heilsubrest kvenna sérstaklega og mig langar að koma inn á það. Bæði höfum við séð að konur í fortíðinni sem hafa unnið erfiðisstörf hafa frekar farið á örorku og í seinni tíð eru konur sem eru í umönnunarstörfum, t.d. í kennslu eða á spítölum, hópur sem við þurfum að horfa sérstaklega til. Þess vegna erum við einmitt í vinnu við að endurskoða það kerfi sem við höfum sem snýr að starfsendurhæfingu þannig að við getum betur stutt við þessa hópa til að komast aftur út á vinnumarkaðinn eða til þess að geta verið í lægra starfshlutfalli. Þetta eru mikilvæg skref í þá átt að jafna stöðu þessara kvenna ásamt þeirri endurskoðun sem nú er í gangi, og hv. þingmanni er fullkunnugt um að á að taka gildi 1. janúar 2025, og þar með þeim aðgerðum sem þar munu fylgja.