152. löggjafarþing — 2. fundur,  1. des. 2021.

stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana.

[21:44]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Virðulegur forseti. Kæru landsmenn. Það er ágætlega við hæfi að nota fullveldisdaginn til að ræða um hér á Alþingi hvers konar samfélagi við viljum búa í. Um margt erum við sammála en annað ekki. Mér finnst dapurlegt að sjá að einn alvarlegasti heilbrigðisvandi þjóðarinnar fer fyrir ofan garð og neðan hjá ríkisstjórninni. Tekjur ríkissjóðs vegna áfengisgjalds hafa hækkað um 3 milljarða á árinu en á sama tíma hækka framlög til sjúkrahússins sem sinnir áfengis- og vímuefnasjúklingum ekki neitt. Þrátt fyrir að orðið lýðheilsa kom fjórum sinnum fyrir í stjórnarsáttmálanum virðist merking orðsins, inntak þess, ekki skipta máli þegar kemur að þessum hópi. Þar mega 700 manns vera áfram á biðlista með tilheyrandi þjáningu. Með þessu metnaðarleysi er aurinn sparaður en krónunni kastað og skilaboð ríkisstjórnarinnar til SÁÁ, sem sinnir nokkrum þúsundum sjúklingum á ári, eru mjög skýr: Verið dugleg að selja álfinn. Getum við ekki verið sammála um það í velferðarsamfélagi að stjórnendur heilbrigðisstofnana þurfi ekki að selja varning í Kringlunni svo sinna megi veiku fólki með mannsæmandi hætti?

Eins og ég nefndi hafa tekjur ríkisins af áfengisgjaldi hækkað um 3 milljarða á árinu. Skýrist það m.a. af færri utanlandsferðum vegna Covid. Þessi tala, 3 milljarðar, er sú sama og 16 stærstu útgerðirnar greiddu í veiðigjöld á síðasta ári. Það er auðvitað einstaklega áhugaverð sanngirnisspurning hvort eðlilegt sé að hækkandi djammstuðull þjóðarinnar vegna Covid skili jafn miklum tekjum í ríkissjóð og þau 16 fyrirtæki sem samanlagt eiga stærstan hluta kvótans. Og svo það sé sagt, þessari sanngirnisspurningu er ekki svarað í stjórnarsáttmálanum. Þar er ekki vikið orði að sanngjarnari gjaldtöku í sjávarútvegi, ekki minnst á þann fleyg sem klofið hefur þjóðina í áratugi, jafnvel þótt nýleg könnun sýni að einungis 14% þjóðarinnar séu ánægð með kerfið. En þeir sem eru gjarnir á að missa raunveruleikatengingu sökum bjartsýni geta þá huggað sig við að á meðan samfélagið logar í illdeilum um sjávarútveginn strengir ríkisstjórnin þess heit í stjórnarsáttmálanum að skipuð verði nefnd, með leyfi forseta, „til að kortleggja áskoranir og tækifæri í sjávarútvegi“. Hinn nýkjörni og orðvari forseti Alþingis hefði varla getað orðað þetta betur.

Sjálfum finnst mér eiginlega fara betur á því að vitna í afbragðsræðu sem flutt var hér á Alþingi fyrir rúmum fimm árum, en hv. þingmanninum varð þar tíðrætt um örfáar fjölskyldur sem efnast hafa gríðarlega á kvótakerfinu. Þar sagði, með leyfi forseta:

„Í raun má segja að enginn sé sáttur við kerfið eins og það er nema þeir sem hagnast verulega á því og svo þeir stjórnmálaflokkar sem hafa gert sér far um að verja þau forréttindi, núverandi stjórnarflokkar.“

Þessi skeleggi þingmaður heitir Svandís Svavarsdóttir og er í dag hæstv. sjávarútvegsráðherra. Stjórnmálaflokkarnir tveir sem hún skammaði af innlifun og krafti voru Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn.

Það er einlæg ósk mín, svona í ljósi þess að boðleiðirnar þarna á milli eru styttri í dag og talsambandið aðeins betra, að orð hæstv. ráðherrans fyrir fimm árum séu leiðarvísir um stefnuna frekar en loðmullan í stjórnarsáttmálanum.

Að lokum verð ég að fá að nefna stjórnarskrána okkar. Hæstv. forsætisráðherra sagði að síðar á kjörtímabilinu ætli hún að ræða við formenn flokka um hvort vilji sé til breytinga. Þau orð eru áhugaverð í ljósi þess að hæstv. forsætisráðherra er búin að vera lokuð inni á fundum í átta vikur með formanni þess flokks sem helst hefur staðið í vegi fyrir því að sanngjarnar og eðlilegar breytingar á stjórnarskránni nái fram að ganga. Það er einlægur vilji okkar í Viðreisn að það verði meiri reisn yfir þessari vinnu á kjörtímabilinu sem nú er nýhafið. Við munum styðja við allar góðar breytingar í þessa átt, einkum og sér í lagi gott og kröftugt auðlindaákvæði. Þjóðin á það skilið.