149. löggjafarþing — 2. fundur,  12. sept. 2018.

stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana.

[21:58]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (Flf):

Herra forseti. Góðir landsmenn. Á þessum fallegu haustdögum fyllumst við ósjálfrátt stolti af okkar stórbrotna landi og dugnaði forfeðra okkar sem hafa komið okkur þangað sem við erum núna.

Kæru landsmenn. Ég ætla að nota þetta tækifæri til að skauta á nokkrum málum sem mér finnst skipta máli. Samgöngumálin eru ofarlega í huga okkar vegfarenda þegar við ökum um landið. Allir eru sammála um að vegakerfið er komið að ystu þolmörkum. Það er ekki boðlegt að ríkisstjórnin skili auðu í þessum málaflokki. Umferðarþungi á þjóðvegunum hefur aukist stórkostlega á allra síðustu árum. Sem fyrr er útspil ríkisstjórnarinnar í formi plástra, nú þegar gera þarf framsýna áætlun um að koma vegakerfinu inn í nútímann. Eftir því eru allir að bíða, hvar svo sem á landinu menn búa.

Ný samgönguáætlun verður að innihalda lausnir í þessum mikilvæga málaflokki sem skiptir svo marga miklu máli. Hér duga engin vettlingatök. Allt vegakerfið er undir, ekki einungis hér í höfuðborginni, heldur allar leiðir út úr henni og þjóðvegir um allt land eru illa farnir, of mjóir og víða þarf að tvöfalda akreinar í báðar áttir. Brýr og önnur samgöngumannvirki þarfnast nýframkvæmda.

Herra forseti. Hér er verk að vinna.

Á undanförnum árum hefur margoft komið fram sú skoðun frá lögreglunni að staða löggæslumála í landinu sé almennt óviðunandi og viðbúnaðargeta hennar óásættanleg. Lögreglubifreiðum hefur fækkað um 20% á síðustu tíu árum og akstur þeirra dregist saman um hartnær 40% á sama tíma. Fjöldi lögreglumanna er langt frá öllum eðlilegum öryggisviðmiðunum. Þannig hefur lögreglan árum saman kallað eftir auknum mannskap, ekki síst til sýnilegrar og almennrar löggæslu.

Þessi skortur á mannskap kemur fram í stórauknu álagi á starfandi lögreglumenn, skertu öryggi þeirra, meiri hættu á meiðslum, auknu brottfalli úr stéttinni svo ekki sé talað um miklu minni frumkvæðisvinnu af hálfu lögreglunnar. Það þarf auðvitað að leggja við hlustir þegar lögregluyfirvöld tala með þessum hætti og nauðsynlegt að bregðast við. Svarið er ekki að hártoga fullyrðingar lögreglunnar um vöntun á mannafla. Það er staðreynd að mannaflaþörf lögreglu er ekki mætt og hefur ekki verið mætt í áraraðir. Lögreglunni þarf að búa viðunandi starfsskilyrði, bæði hvað varðar mannafla og tækjakost, svo hún geti sinnt lögbundnu hlutverki sínu.

Herra forseti. Hér er verk að vinna.

Ég hef ákveðið að beita mér fyrir því að gerð verði skýrsla um hag okkar Íslendinga af þátttöku í Schengen-samstarfinu þar sem teknir verði saman kostir þess og gallar. Aðrar eyþjóðir, til að mynda Bretar og Írar, kusu að standa utan við þetta samstarf. Þá verði rækilega könnuð afstaða lögreglunnar til samstarfsins, framkvæmdar þess og tækifæra í því sambandi. Leita þarf ráða hjá lögreglunni svo hún geti sem best sinnt störfum sínum á landamærum landsins.

Við í Flokki fólksins höfum sl. vetur beitt okkur fyrir því að gerð verði skýrsla til þingsins um kosti og galla aðildar okkar að EES og því eðlilegt að skýrsla um Schengen-samstarfið verði gerð samhliða. — Góðar stundir.