135. löggjafarþing — 20. fundur,  7. nóv. 2007.

sáttmáli Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðra.

132. mál
[15:06]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Árni Þór Sigurðsson) (Vg):

Frú forseti. Í desember á síðasta ári samþykkti allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna sáttmála um réttindi fatlaðra og var skrifað undir hann í mars sl. Markmiðið með sáttmálanum er að fatlaðir njóti allra mannréttinda og mannfrelsis til fulls og jafns við aðra og enn fremur er sáttmálanum ætlað, eins og segir, með leyfi forseta: „að vernda og tryggja slík réttindi og frelsi og að auka virðingu fyrir mannlegri reisn þeirra“.

Sáttmálinn tekur á fjölmörgum málum og er nokkuð yfirgripsmikill. Meðal þeirra atriða sem hann hvílir á eru virðing fyrir mannlegri reisn og sjálfræði og sjálfstæði einstaklinga. Hann bannar mismunun, tryggir að fatlaðir geti tekið virkan og fullan þátt í samfélaginu og á að veita þeim jöfn tækifæri. Þá tekur sáttmálinn á hlutum eins og aðgengismálum og jafnrétti kynja. Hann fjallar m.a. sérstaklega um fatlaðar konur og er viðurkennt að konur búi við og séu þolendur margþættrar mismununar og að sérstakar ráðstafanir þurfi til að þær geti notið sín til fulls.

Eins og nærri má geta skipta alþjóðlegir sáttmálar eins og sá sem hér er vikið að verulegu máli. Sáttmálanum um réttindi fatlaðra er vissulega ætlað að bæta réttarstöðu fatlaðra og tryggja réttindi þeirra í samfélaginu, tryggja að þeir njóti í hvívetna sömu réttinda og aðrir þegnar og hvers konar mismunun á grundvelli fötlunar er bönnuð. Á hinn bóginn er það ekki síður þýðingarmikið að sáttmálar af þessum toga öðlist lögformlegt gildi og réttarstaða þeirra sem sáttmálinn nær til sé með þeim hætti tryggð í íslenskri löggjöf.

Hagsmunasamtök fatlaðra hafa látið málið til sín taka og sömu sögu er að segja um Mannréttindaskrifstofu Íslands. Fjallað hefur verið um sáttmálann á ráðstefnum og fundum og í samþykkt landsþings Landssamtakanna Þroskahjálpar nú í október segir m.a., með leyfi forseta:

„Landsþing Landssamtakanna Þroskahjálpar hvetur íslensk stjórnvöld til að hefjast þegar handa við að skoða hvort einhver ákvæði íslenskra laga stangist á við ákvæði samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðra til að hægt verði að lögfesta hann. Jafnframt skorar þingið á stjórnvöld að raungera ákvæði samningsins í lífi fólks með fötlun á Íslandi.“

Eins og ég hef rakið er sáttmáli Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðra afar mikilvægur og í honum felast miklar réttarbætur fyrir fatlað fólk á Íslandi. Til þess að áhrif hans verði raunveruleg er brýnt að hann öðlist lagagildi hér á landi. Ég hef því leyft mér að leggja fram fyrirspurn til hæstv. félagsmálaráðherra.

Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að Alþingi lögfesti sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðra sem samþykktur var á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 13. desember 2006?