150. löggjafarþing — 20. fundur,  17. okt. 2019.

Landsréttur.

[10:59]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Nú eru nærri tvö ár síðan hið mikilvæga millidómstig, Landsréttur, tók til starfa. Allan þann tíma sem liðinn er hefur skuggi hvílt yfir vegna þess hvernig fyrrverandi dómsmálaráðherra Sjálfstæðisflokksins stóð að skipun dómara við Landsrétt. Innlendir dómstólar sem og Mannréttindadómstóll Evrópu hafa komist að samhljóða niðurstöðu, þeirri að ráðherra hafi brotið lög við skipun dómara. Frá því að Mannréttindadómstóll Evrópu kvað upp sinn dóm í mars sl., þar sem tekið var undir niðurstöðu innlendra dómstóla um brot ráðherra en jafnframt komist að þeirri niðurstöðu að vegna þessa væri ekki hægt að tryggja málsaðilum réttláta málsmeðferð fyrir umræddum dómurum, hefur dómstólasýslan gengið grýtta bónleið til dómsmálaráðherra um nauðsynlega fjölgun dómara við réttinn. Fjarvera dómaranna fjögurra úr hópi alls 15 dómara við réttinn er ekki léttvægt mál en því miður virðist mér sem hæstv. dómsmálaráðherra átti sig alls ekki á þeirri starfsemi sem við þetta raskast.

Í hverju máli í Landsrétti þurfa að sitja þrír dómarar, enda er um áfrýjunardómstól að ræða og því hefur slíkt skarð, sem fyrrum dómsmálaráðherra Sjálfstæðisflokksins skilur eftir sig í starfi Landsréttar, óafturkræf áhrif á fjölda fólks. En hæstv. dómsmálaráðherra leyfir sér að svara dómstólasýslunni engu. Senn líður að áramótum og þá fara tveir út vegna þeirra tveggja dómara sem samþykktu að fara í leyfi vegna ástandsins en ekkert heyrist frá hæstv. ráðherra.

Ég vil því spyrja dómsmálaráðherra: Er ekki komið gott af þeim ásetningi Sjálfstæðisflokksins að þvælast fyrir góðu starfi dómstóla í landinu? Er það ekki hluti af ábyrgð hæstv. ráðherra að tryggja að dómskerfið starfi með eðlilegum hætti og íbúar landsins fái notið réttlátrar málsmeðferðar fyrir dómi?