Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 20. fundur,  19. okt. 2022.

staðfesting ríkisreiknings 2021.

327. mál
[19:03]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Ég vil örstutt fjalla um það sem ég talaði um í andsvörum við hæstv. ráðherra áðan, að ríkissjóður sé í rauninni rekinn með tilliti til langtímaþróunar efnahagsins. Það hefur að sjálfsögðu ekki áhrif á það hvernig ríkissjóður ákveður að leggja á skatta eða lækka skatta [Kliður í þingsal.] og því um líkt heldur einungis að fyrirsjáanleikinn sé á þeim stað

(Forseti (AIJ): Forseti biður þingmenn að hafa hljóð í salnum.)

að það séu þessi langtímamarkmið sem ráði því hvernig ríkissjóður virkar. Ef ríkissjóður er stöðugt að elta uppsveiflur og skera niður þegar það eru niðursveiflur þá hefur tilhneigingin verið sú að ríkissjóður einfaldlega eykur á vandann í aðra hvora áttina. Ef ríkissjóður er stöðugur í þeim verkefnum sem hann er sinna þá býr hann einmitt til þann stöðugleika sem lög um opinber fjármál eru með sem grunngildi. Hann er þá ekki að bæta sérstaklega í reiknaðar tekjur og útgjöld þegar það er uppsveifla í gangi heldur er það bara einfaldlega auki sem við vitum að verður notaður þegar niðursveifla kemur á móti. Mér fannst áhugavert að heyra svör hæstv. ráðherra um þessa hugmynd því að hún kom fram á fundi fjárlaganefndar með fjármálaráði, fjármálaráð varpaði fram þessari hugmynd út af þessum ófyrirsjáanleika sem við sjáum í langtímaspám, langtímaefnahagsspám. Þær eru gjörsamlega gagnslausar til lengri tíma, þær enda alltaf hvort eð er á einhverjum meðal langtímahagvexti. Af hverju ekki að gera þá bara ráð fyrir því? Ef efnahagurinn skýst upp eða droppar niður, þá bara gerist það og ríkissjóður heldur áfram á sinni siglingu. Mér finnst alla vega vert að skoða þetta á umfangsmeiri hátt heldur en að hæstv. ráðherra kasti þessu svona út um gluggann, sérstaklega þegar hugmyndin kemur frá fjármálaráði sem hefur veitt okkur einstaklega góð ráð í meðhöndlun fjármálastefnu og fjármálaáætlunar á undanförnum árum.