138. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2009.

afskriftir skulda og samkeppnisstaða fyrirtækja.

[11:23]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Virðulegur forseti. Hér er verið að ræða gríðarlegar eignatilfærslur eins og komið hefur fram, niðurfellingu skulda fyrirtækja. Eins og glöggt hefur komið í ljós og siður virðist vera hér á landi er ekkert samræmi í neinu af því er þetta varðar, ekkert gegnsæi í neinu af því er þetta varðar heldur er hér allt gert undir borðum og bak við tjöldin. Þetta er hið nýja Ísland nýju ríkisstjórnarinnar.

Íslensku samfélagi og íslenskum stjórnvöldum tókst að klúðra málum fyrir hrun. Þeim tókst að klúðra hér málinu í hruninu, eins og bara samskipti t.d. milli íslenskra og breskra stjórnvalda leiddu glöggt í ljós, og nú er Íslendingum að takast að klúðra öllum málum eftir hrun. Þessu verður tekið eftir um allan heim, þetta hrun er einsdæmi í sögunni og það er fylgst með. Íslenskum stjórnvöldum mun því miður ekki takast að komast þokkalega frá þessu. Kennitöluflakk, eignatengsl, gervifyrirtæki, það er verið að fella niður skuldir í stórum stíl á fyrirtæki, menn skipta um kennitölur og halda öllum sínum eignum. Hreinlegast hefði að sjálfsögðu verið að afskrifa ekki neitt og láta þetta allt fara í gjaldþrot. Eins og kom fram hjá Lilju Mósesdóttir er það kannski ekki besta leiðin en kannski hefði mátt hugsa sér að afskrifa þessar skuldir að einhverju leyti, afhenda þá starfsfólkinu fyrirtækin og taka þau af eigendunum sem komu þeim í þrot.

Þetta hefði átt að gera öðruvísi, frú forseti, og þetta hefði átt að gera betur. Það er orðið of seint. Þessi vinnubrögð eru hins vegar ekki og hafa aldrei verið náttúrulögmál þó að við höfum búið við þau alla tíð. Þessi vinnubrögð eru og hafa alla tíð verið þingmál.