145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

atvinnumál sextugra og eldri.

[12:18]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka kærlega fyrir umræðuna. Ég tek líka undir þau orð að það væri þvílík sóun að nýta ekki krafta eldra fólks eins og yngra fólks. Það sem hefur skilað okkur áfram er hin mikla atvinnuþátttaka á íslenskum vinnumarkaði þar sem bæði konur og karlar, ungir sem aldnir fá störf. Það er ástæðan fyrir því, eins og ég fór í gegnum, að atvinnuþátttaka þeirra sem eru 60 ára og eldri hér á landi er sú mesta sem um getur á Vesturlöndum. Það er eitthvað sem er virkilega dýrmætt fyrir íslenskt samfélag og við eigum að halda í með öllum mögulegum ráðum.

Ég vil líka ítreka að tölur sýna að skráð atvinnuleysi meðal miðaldra og eldra fólks er ekki meira en hjá öðrum aldurshópum hér á landi og sveiflur hvað varðar skráð atvinnuleysi eru minni milli árstíða hjá þeim sem eru eldri en annarra hópa sem skráðir eru án atvinnu. En eins og kom líka fram í mínu máli þá er það hins vegar svo að þegar fólk sem komið er vel yfir miðjan aldur missir vinnuna þá virðist það eiga erfiðara með að fá vinnu aftur. Það er eitt af því sem við þurfum að huga sérstaklega að.

Ég ítreka mikilvægi þess að við innleiðum löggjöf sem tekur á mismunun á vinnumarkaðnum. Það er hluti af þeirri tillögu sem liggur fyrir varðandi mótun nýrrar vinnumarkaðsstefnu. Það er mikilvægt að tryggja að eldra fólk hafi möguleika á því að viðhalda starfsfærni sinni eins og allir aðrir sem eru á vinnumarkaðnum og eitt af því sem við þurfum sérstaklega að benda á hvað varðar starfsmenntasjóðina er að fólk haldi áfram að viðhalda starfsfærni sinni alla ævi. Það er jákvætt þegar fólk sækir sér menntun en í samanburði við önnur lönd mætti það vera jafnvel meira en er nú þegar.

Síðan eru það þessar stóru ákvarðanir sem við erum að ræða hér og höfum verið að ræða töluvert í þinginu og nefndum sem hafa verið (Forseti hringir.) starfandi sem snúa að breytingum á lífeyristökualdrinum. Við þurfum náttúrlega að horfa bæði á almenna vinnumarkaðinn og opinbera vinnumarkaðinn því að þar eru (Forseti hringir.) menn ekki endilega að tala um 70 eða 75 ára þegar kemur að opinberum starfsmönnum. Í mínum huga er lykilatriðið að samræma þetta svo (Forseti hringir.) að við sóum ekki hinum mikilvægu starfskröftum þeirra sem eru 60 ára og eldri.