136. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2008.

skilyrði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

[10:47]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Það væri náttúrlega best að ríkisstjórnin aflétti leyndinni af þessu samkomulagi þannig að allir, bæði þing og þjóð, fengju að vita nákvæmlega hvað er í þessu plaggi. Hæstv. fjármálaráðherra svaraði því heldur ekki hvað var rætt á fundi fjármálaráðherra EES-ríkjanna í Brussel nú í vikunni en á heimasíðu formennskulandsins, Frakklands, kemur fram að ráðherrarnir hafi rætt málið lengi, stöðu Íslands, á þessum fundi. Er ekki kominn tími til að aflétta þessari leynd á málinu öllu? Á ekki þing og þjóð rétt á að fá að vita hvað ráðamenn eru að véla um? Er hugsanlega verið að knýja Íslendinga til að undirgangast skuldbindingar gagnvart Bretum og Hollendingum sem enginn möguleiki er á að standa undir? Það er mál að linni, hæstv. forseti, það verður að koma fram við þing og þjóð af trúmennsku og virðingu fyrir þeirri staðreynd að ríkisstjórnin starfar í umboði þings og þjóðar. Annars er auðvitað ekki við því að búast að hún njóti trausts og eru raunar þegar komnar fram vísbendingar í skoðanakönnunum um að það séu að verða örlög hennar.

Ég tel, virðulegur forseti, að hér sé um svo stórt mál að ræða (Forseti hringir.) að það sé nauðsynlegt að á vettvangi Alþingis fari fram ítarleg umræða, hugsanlega utandagskrárumræða um aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og þá skilmála sem hér er verið að tala um.