142. löggjafarþing — 21. fundur,  3. júlí 2013.

þingsköp Alþingis.

30. mál
[19:31]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Hæstv. forseti. Í forföllum forsætisráðherra mæli ég fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um þingsköp Alþingis. Frumvarpið felur í sér að samkomudegi nýs þings haustið 2013 verður frestað frá öðrum þriðjudegi í september, þ.e. 10. september nk., eins og lög ákveða núna, til þriðjudagsins 1. október 2013 eða um þrjár vikur.

Allnokkur samtöl hafa farið fram um málið milli forustumanna flokkanna undanfarið og þá í sambandi við það hvernig afgreiðslu þingmála verður lokið á þessu þingi. Ég hefði kosið að að flutningi málsins stæðu fulltrúar allra flokka en svo varð ekki. Þess vegna er málið lagt fram af forsætisráðherra og ég geri ráð fyrir að afstaða einstakra þingmanna verði misjöfn. En ég treysti því og veit, eftir samtöl okkar forustumanna flokkanna, að þó að skoðanir kunni að vera skiptar um málið fái það framgang innan þess ramma sem settur hefur verið um afgreiðslu mála í dag og á morgun. Frumvarpið er flutt til að betra ráðrúm fáist til að undirbúa fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2014 sem leggja þarf fram á þingsetningarfundi nú í haust.

Í því felst einnig að þá ber að leggja fram frumvörp um breytingar á skattalögum og um aðrar ráðstafanir í ríkisfjármálum eins og segir í 2. mgr. 25. gr. þingskapa. Stjórnarskráin mælir svo fyrir í 42. gr. að saman fari þingsetningardagurinn og framlagning fjárlagafrumvarps. Ég vil þó geta þess í þessu sambandi að forsætisráðherra mun á morgun leggja fram tillögu um frestun á fundum þessa sumarþings, 142. löggjafarþings, og að sú frestun standi fram til annars þriðjudags í september, þ.e. 10. september nk. Er þá ráðgert að haldnir verði þingfundir nokkra daga samkvæmt skipulagi sem kynnt hefur verið fulltrúum þingflokka. Að þeim fundadögum loknum verður 142. löggjafarþingi þá enn frestað til 1. október, þ.e. fram til þess að nýtt löggjafarþing verður sett eins og ákvæði þessa frumvarps mælir fyrir um.

Í 1. mgr. 35. gr. stjórnarskrárinnar eru ákvæði um samkomudag reglulegs Alþingis en þar segir að hann skuli vera 1. október ár hvert. Þeirri tímasetningu má, samkvæmt ákvæði 2. mgr. sömu greinar, breyta með lögum. Hinn almenni og reglulegi samkomudagur Alþingis að hausti er nú ákveðinn í þingsköpum, þ.e. annar þriðjudagur í september eins og áður hefur komið fram. Aðstæður að þessu sinni eru hins vegar óvenjulegar þar sem kosningar fóru fram í lok apríl. Ný ríkisstjórn var mynduð undir lok maímánaðar og nýkjörið þing kom fyrst saman 6. júní. Þingstörf hafa dregist nokkuð og það er mat okkar að illframkvæmanlegt sé að ljúka eðlilegri vinnu, eðlilegum undirbúningi við fjárlagafrumvarp og við frumvörp um skattamál og aðrar ráðstafanir í ríkisfjármálum, fyrir 10. september þannig að ásættanlegt sé. Af þeim ástæðum er frumvarp þetta flutt.

Ég vil láta þess getið að ég er þeirrar skoðunar að menn hafi við síðustu breytingar á þingskapalögunum þar sem þingsetningardagurinn var fluttur fram — og síðan með þeim breytingum sem fylgdu í kjölfarið, t.d. um að tekjuráðstafanirnar komi samhliða fjárlagafrumvarpinu, sem er skynsamleg ákvörðun — hafi mönnum hugsanlega yfirsést sú staða sem kann að koma upp á kosningaári, eins og ég hef hér rakið. Ég ítreka það þess vegna undir lok máls míns að sú breyting sem hér er verið að mæla fyrir tekur til þingsetningardagsins í haust en frumvarpið gerir ráð fyrir því að á næsta ári verði þingsetningardagurinn hins vegar eins og lögin kveða á um í dag. Ég tel reyndar að það ætti að koma til umræðu og skoðunar í þingskapanefnd í rólegheitum næsta þingvetur hvaða þörf er fyrir breytingar á þingskapalögunum almennt og kannski einkum í þessu tilliti.

Við þekkjum það þingmenn sem hafa verið á þinginu síðastliðinn áratug að töluvert miklar breytingar hafa verið á þinginu að hausti til. Það hefur verið mjög misjafnt hversu lengi þingið hefur starfað fram á sumarið. Það heyrir til dæmis til mikilla undantekninga, ef við horfum 20 ár aftur í tímann, að við skulum vera hér saman komin í júlímánuði en það kannski þætti ekki svo mjög óvanalegt ef við horfum þrjú til fimm ár aftur í tímann að þingið hafi starfað langt fram á sumar. (Gripið fram í.) — Það er rétt, sem kallað er fram í, að sum árin hefði þetta þótt tiltölulega lítið þinghald sem þó hefur farið fram í sumar.

Reynsluna af þessu finnst mér að við þurfum að meta sameiginlega hér í þinginu. Ég var þeirrar skoðunar á sínum tíma að sá stutti kafli sem settur var á í september — að það hafi verið færð fram gild rök fyrir því að láta reyna á hann en það var reynsla okkar eftir að hafa þingað í september í nokkur skipti að sá þingtími sem menn höfðu gert ráð fyrir þegar reglunum var breytt nýttist ekki. Þess vegna var septemberstubbnum, eins og hann var oft nefndur í umræðunni, kippt út úr þingskapalögunum og þingsetningardeginum flýtt, hann var færður fram. Með því að miða við annan þriðjudaginn í september er það aldrei á föstum degi mánaðarins og sá dagur færist fram um eina viku þar til hann færist síðan aftur um heila viku og það getur verið dálítið sveiflukennt. En ég tel alveg augljóst að við þær aðstæður sem hafa skapast — og ég segi það eftir að hafa starfað í ráðuneytinu í um það bil mánuð — vegna þeirra sérstöku aðstæðna sem koma upp á kosningaári séu mjög gild rök til að færa þingsetningardaginn aftur. Síðan er komið til móts við þá sem gjarnan vilja að þingið starfi í september með því samkomulagi sem ég gat um í ræðu minni sem gerir ráð fyrir að þingið komi engu að síður saman 10. september en það verður þá hluti af þessu þingi. Upphaf hins næsta verður 1. október.