133. löggjafarþing — 22. fundur,  7. nóv. 2006.

opinber stuðningur við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun.

280. mál
[16:55]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Við erum að ræða mál sem allmikið var fjallað um á síðasta þingi. Sú breyting hefur orðið á að iðnaðarráðherrann hefur breyst dálítið en málið ekki. Mér sýnist að við séum að ræða nákvæmlega sama mál og í fyrra í aðalatriðum.

Gríðarlegur klofningur var í málinu í stjórnarflokkunum í fyrra. Ég reikna alveg með að sá klofningur sé enn fyrir hendi. Hann lýsti sér mjög vel í því að meiri hluti iðnaðarnefndar, reyndar öll iðnaðarnefnd, samþykkti sérstakar breytingar á byggðaáætlun í fyrravetur þar sem lögð mikil áhersla á að efla Byggðastofnun og sjá til að hún hefði fjármuni til að vinna að þeim verkefnum sem ætlast er til að hún vinni að.

Sú stefna sem fyrrverandi iðnaðarráðherra rak var hins vegar að leggja niður Byggðastofnun með öllum ráðum. Sá vegur hefur verið genginn á undanförnum árum með fjölmörgum ákvörðunum. Ég og við samfylkingarmenn erum algjörlega andvígir þessari leið. Við teljum að meðan ríkisvaldið vill standa við bakið á landsbyggðinni með framlögum til byggðamála eigi að halda vel utan um þau mál, aðallega af einum aðila. Sá aðili á auðvitað að vera Byggðastofnun.

Þetta er því ekki rétta leiðin, sem hér er á ferðinni, fyrir utan að það vekur tortryggni um vinnubrögðin í framtíðinni hvernig stofnun, sem á að hafa þetta með höndum núna, er uppsett. Það á sem sagt að vera á forræði og ákvörðunarvaldi forstjóra stofnunarinnar að fara í framkvæmdir á landsbyggðinni þar sem herðir að. Það er einn maður sem tekur þá ákvörðun. Hvert á að beina afli þessarar stofnunar?

Ég tel mjög óheppilegt að þannig sé unnið að þessum málum að vilji Alþingis sé ekki virtur. Vilji Alþingis kom skýrt fram þegar byggðaáætlun var afgreidd út úr iðnaðarnefnd. Ég tel að þar hafi orðið pólitískt samkomulag. Hvað var þar gert? Þar var lögð mikil áhersla á Byggðastofnun, eins og ég nefndi áðan, og sérstök verkefni sem komu fram í C-kafla ályktunar sem iðnaðarnefnd samþykkti. Þar eru nokkur atriði talin upp og ég ætla að rifja þau upp til að setja umræðuna í samhengi. Nefndin leggur til að haft verði að leiðarljósi m.a. að efla Byggðastofnun og gera henni kleift með framlögum í fjárlögum að sinna mikilvægum verkefnum á sviði byggðamála, með leyfi forseta:

„a. Að gera sérstaka athugun að stöðu byggðarlaga sem glímt hafa við viðvarandi fólksfækkun, meta styrkleika þeirra og veikleika og greina möguleika til eflingar þeirra, samanber aðgerð númer 7 í tillögunni.

b. Að efla atvinnuþróunarfélög og nýsköpunarmiðstöðvar sem hluta af stoðkerfi atvinnuþróunar og nýsköpunar á landsbyggðinni.“

Hér er sérstaklega vikið að atvinnuþróunarfélögunum vegna þess að þeim voru ekki gerð þau skil, í því frumvarpi sem þá var til umræðu, sem menn vildu sjá.

„c. Að taka þátt í gerð og framkvæmd svæðisbundinna vaxtarsamninga þar sem opinberir aðilar og einkaaðilar sameinast um aðgerðir til að efla samkeppnishæfni svæða og auka hagvöxt. Stofnunin meti árangur af samningunum reglulega, samanber aðgerð númer 4 í tillögunni.“

Iðnaðarnefnd taldi sérstaka ástæðu til að álykta um þetta vegna þess að betri og öflugri stuðning vantar við það sem menn eru að gera í heimabyggð í atvinnuþróunarfélögum.

„d. Að hefja á þessu ári skipulagða söfnun tölfræðilegra gagna um byggðaþróun þannig að úrvinnsla þeirra geti hafist í upphafi árs 2007…“ — Af hverju var þetta gert? Þetta er skylda Byggðastofnunar og hefur verið árum saman. En hún hefur aldrei haft til þess fjármagn.

„e. Að undirbúa í samvinnu við Reykjavíkurborg og önnur sveitarfélög gerð landshlutaáætlana sem verði ætlað að ná yfir landið allt, samanber aðgerð númer 6 í tillögunni.

f. Að gera afrakstur tilraunaverkefnisins um rafrænt samfélag aðgengilegan fyrir önnur byggðarlög á landsbyggðinni, samanber aðgerð númer 14 í tillögunni.

g. Að hafa fyrir Íslands hönd forgöngu um þátttöku í Norðurslóðaáætlun Evrópusambandsins, NPP, og Norrænu Atlantsnefndinni, NORA, samanber aðgerðir númer 22 og 23 í tillögunni.

Mikilvægt er að Byggðastofnun, sem ber mikla ábyrgð á framkvæmd byggðaáætlunar, verði gert kleift að sinna því mikilvæga hlutverki. Nefndin leggur því áherslu á að skerpt verði á hlutverki og ábyrgð Byggðastofnunar í byggðaáætlun áranna 2006–2009. Í því felst að Byggðastofnun verði tryggðir fjármunir í fjárlögum til þess að sinna lögbundnu hlutverki sínu.

Miklir erfiðleikar steðja að ákveðnum landsvæðum. Í því ljósi er mikilvægt að auka opinber fjárframlög til þeirra svæða sem glímt hafa við mikla erfiðleika á borð við hrun rækjuiðnaðarins og þar sem veiðiheimildir hafa horfið snögglega. Byggðastofnun ætti að vera í lykilhlutverki í því að efla þau byggðarlög.“

Ég las þetta, með leyfi forseta, fyrst og fremst til að draga athygli að því að iðnaðarnefnd lagði mikla áherslu á að hlutverk Byggðastofnunar yrði eflt. Það verður ekki gert með þeirri aðferð, þeirri leið sem hér er mælt fyrir.

Við eigum auðvitað eftir að fást við þetta mál í iðnaðarnefndinni aftur. Það er gamall kunningi þar frá því í fyrravetur. Það kom fram áðan að við fengum fjölmargar umsagnir um málið í iðnaðarnefnd í fyrravetur. Þær voru nánast allar á eina leið. Það að blanda saman þeirri ágætu hugmynd að sameina Iðntæknistofnun og Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins saman við þau málefni sem menn töldu sig þurfa að leysa gagnvart Byggðastofnun var ekki talin góð hugmynd.

Því var lýst í greinargerð með þessu frumvarpi að búið var að leggja verulega mikla og góða vinnu í sameiningu þeirra tveggja stofnana sem ég nefndi áðan. En þegar málið er komið inn í iðnaðarráðuneytið þá dettur mönnum það snjallræði í hug að bæta Byggðastofnun inn í þetta. Um það hefur í raun verið deilt alveg síðan að málið kom fyrir Alþingi, þ.e. hvort það sé rétta leiðin. Ég tel að þetta sé röng leið og við í Samfylkingunni teljum að þarna sé beitt röngum aðferðum.

Það hvernig sótt hefur verið að Byggðastofnun undanfarin ár hefur skapað gríðarlega tortryggni gagnvart þessum málum og hvernig hún hefur verið veikt af stjórnvöldum með alls konar aðgerðum, meðal annars með því að hluta hana niður, flytja verkefni hennar og dreifa um landið. Þegar komið hafa ný verkefni sem hafa áhrif á byggðamál þá hafa þau ekki verið falin Byggðastofnun o.s.frv.

Ég tel að eins og málin eru sett upp í þessu máli sé byggðaþættinum ekki sinnt þannig að maður geti treyst því að staðið verði við bakið á byggðarlögum sem þurfa á stuðningi að halda. Fyrir utan það að Byggðasjóði sem slíkum er ákaflega þröngur stakkur skorinn. Það þarf nánast að vera þannig, t.d. ef maður skoðar e-lið 11. gr. Þar segir að sjóðnum sé heimilt að veita ábyrgðir á lán til uppbyggingar atvinnulífs á svæðum þar sem sérstök áföll valda verulegu atvinnuleysi. Þar er Byggðasjóði heimilt að veita ábyrgðir á lán allt að 75%. En hvað þýðir þetta? Þetta þýðir að lánastofnanir hafa úrslitaákvörðunarvald um það hvort eitthvað af þessu tagi verði gert.

Ég tel að menn muni fara yfir þetta í nefndinni aftur. Ég á erfitt með að trúa, eftir þá umræðu sem varð um þetta mál í fyrravetur, að sátt sé um málið í stjórnarflokkunum. Mér fyndist það afar undarlegt. Það kæmi mér á óvart. Ég ætla að bíða eftir því að ræða þetta mál betur í iðnaðarnefnd. Ég ætla ekki að fara yfir alla þá umræðu sem fór fram í fyrravetur. Ég trúi því að það hljóti að vera hægt að finna fleti á að gera breytingar á þessu máli með þeim hætti að betri pólitísk sátt geti orðið um það. Ég trúi því illa, eins og ég sagði áðan, að stjórnarliðar séu orðnir sammála um að hafa málið nánast óbreytt frá því sem lagt var fram af iðnaðarráðherra sem leit öðruvísi út í fyrrahaust.