142. löggjafarþing — 22. fundur,  4. júlí 2013.

úthlutunarreglur LÍN og kjör stúdenta.

[11:27]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil rétt eins og aðrir þakka málshefjanda fyrir að vekja máls á þessu mikilvæga viðfangsefni. Þetta er, eins og hér hefur komið fram, partur af þeirri pólitísku mynd sem hér er að dragast upp og því að hæstv. menntamálaráðherra fer mikinn og mjög geyst fram í sínum embættisverkum á fyrstu vikum nýrrar ríkisstjórnar. Þessi nýja stjórn Lánasjóðs íslenskra námsmanna, sem er skipuð sjálfstæðismönnum eingöngu, gerir þá tillögu sem hv. þm. Haraldur Einarsson gerir athugasemdir við, þ.e. um samráðið.

Námsframvindukrafan átti að vera til þess að spara sjóðnum peninga, ekki satt? Samt hefur ráðherrann ítrekað vísað til þess að reglan sé til þess að hvetja fólk áfram í námi og að við séum allt of lengi að útskrifa fólk úr námi þegar hann er nánar spurður út í það. Þetta eru einfaldlega allt önnur rök og sennilega ólögmæt sjónarmið, virðulegi forseti. Stjórn LÍN hefur hvorki valdheimildir né tilgang samkvæmt lögum til að hafa áhrif á stefnu háskóla eða námsmanna um námshraða.

Vilji ráðherra ná þeim markmiðum verður hann að gera það í gegnum háskólana. Með þessu úrræði er verið að fara bakdyramegin að þessum markmiðum um aukna námsframvindu sem vegur að sjálfstæði háskólanna en það er, hæstv. ráðherra til upplýsingar, gríðarlega mikilvægur hluti af eðli þeirra.

Það er líka rétt að geta þess að hér er um að ræða afar óvandaða stjórnsýsluhætti, hér er verið að breyta úthlutunarreglum með svo skömmum fyrirvara, þegar innan við tveir mánuðir eru þar til skólaárið hefst, og þar er alveg klárlega verið að koma aftan að námsmönnum. Í því samhengi er rétt að nefna að umboðsmaður Alþingis hefur þegar, og fyrir nokkrum missirum, beint þeim tilmælum til mennta- og menningarmálaráðherra og lánasjóðsins að alltaf þurfi að tryggja námsmönnum fullnægjandi ráðrúm til að bregðast við breytingum á úthlutunarreglum. Þetta hefur hæstv. ráðherra til viðbótar hunsað.