142. löggjafarþing — 22. fundur,  4. júlí 2013.

úthlutunarreglur LÍN og kjör stúdenta.

[11:31]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. menntamálaráðherra fyrir svörin, þakka viðleitnina. Ég kann að meta það að fólk taki við sér og taki við ábendingum, það finnst mér þakkarvert þótt mér finnist ekki nóg hafa verið gert. Ég verð að segja að ef ég ætti að velja á milli hækkunar á grunnframfærslu um 3%, sem er ekki neitt neitt fyrir heildina, og tefla því saman við jafnrétti til náms vel ég jafnrétti til náms. Ég verð að segja það.

Varðandi Norðurlöndin hefur náttúrlega komið fram í máli hv. þingmanna að þar er allt annað dæmi, þar eru styrkir og námsmenn á Íslandi eru alls konar. Það er meiri fjölbreytni þar. Út af því, út af þessu hruni líka, þetta er ákveðið félagslegt úrræði núna að fara í nám. Fólk er að taka á honum stóra sínum, bæta við sig vinnu, fara í nám og efla möguleika sína og framfærslu fyrir sig og börnin sín, oft einstæðar mæður. Og það er verið að skerða þetta. Mér finnst það svo sárt að það sé dregin þarna ein lína. Jú, það er verið að reyna að redda þessu aðeins en þetta er röng hugsun og þetta er tilfærsla á vandamáli.

Munum að ríkissjóður er einn pottur og hér er um að ræða tilfærslu á vandamáli. Það er ekki góður bragur á þessu.