150. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2019.

menntun lögreglumanna.

233. mál
[17:27]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið við fyrirspurnum mínum og eins þeim hv. þingmönnum sem hafa blandað sér í umræðuna. Það verður að segjast að það gleður mitt litla hjarta að svörin séu með þeim hætti að við höfum stigið þarna gott og jákvætt skref sem hefur þýtt aukið aðgengi fólks alls staðar að af landinu að þessari menntun. Það var erfitt fyrir embættin víðs vegar um landið að koma sínu fólki sem var áhugasamt um að mennta sig til náms. Það er mikilvægt að lögreglumenn njóti háskólamenntunar og ég tel að við séum á góðri leið og ég fagna því að ráðuneytin tvö og hæstv. ráðherra menntamála og hæstv. ráðherra dómsmála ætli sér að fara í úttekt á náminu þannig að við fáum í skýrsluformi hvernig nákvæmlega þetta allt saman gengur og getum þá brugðist við ef eitthvað er sem þarf að bregðast við.

Það er fagnaðarefni að kynjahlutföll séu jöfn og auðvitað getum við stýrt því hversu margir fara í gegnum námið. Það verður að taka mið af þeirri þörf sem er fyrir menntaða lögreglumenn og ríkislögreglustjóraembættið metur hverju sinni. Ég þakka kærlega fyrir þessa umræðu.