151. löggjafarþing — 22. fundur,  18. nóv. 2020.

Nýsköpunarmiðstöð Íslands.

70. mál
[16:26]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Guðjón S. Brjánsson) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég lagði fram fyrir allnokkru fyrirspurn í sex liðum til munnlegs svars, eða í byrjun október. Talsvert vatn hefur runnið til sjávar síðan en flest er enn óljóst um það málefni sem spurt er um. Nýsköpunarmiðstöð Íslands var sett á fót árið 2007 með sameiningu Iðntæknistofnunar og Rannsóknastofnunar byggingariðnaðarins. Stofnunin er með aðstöðu á nokkrum stöðum landsins og þar hefur starfsfólk m.a. haft með höndum þau verkefni að þefa uppi sprota og frumkvöðla til að styðja þá og styrkja fyrstu skrefin og leiðbeina. Ráðherra kynnti það í febrúar að þessi stofnun yrði lögð niður og að ætlunin væri að færa verkefni Nýsköpunarmiðstöðvar undir annað rekstrarform. Og hvað skyldi það nú þýða?

Ég spyr virðulegan ráðherra: Telur ráðherra það ásættanlegt, eðli málsins samkvæmt og verkefnanna vegna, þessa mikilvæga vísindastarfs, að Nýsköpunarmiðstöð falli út og að hægt sé að framkvæma þetta af aðilum á markaði, eins og hún hefur orðað það? Þetta er umhugsunarefni. Í dag er 18. nóvember. Frumvarp varðandi þetta mikilvæga mál og þessar breytingar er enn ekki komið fram. Það hefur ekki verið mælt fyrir því. Það hefur ekki fengið nefndarumfjöllun eða nokkra umræðu hér í þinginu. Það veit enginn hvernig það lítur út. Er það virkilega ásetningur ráðherra að þessi lög verði að veruleika fyrir áramót? Ríflega 80 manns starfa hjá Nýsköpunarmiðstöð. Munu þeir aðilar allir missa störf sín um áramótin? Kemur til greina í huga ráðherra að fresta a.m.k. þessari ákvörðun í ljósi þessara aðstæðna? Og telur ráðherra virkilega grundvöll fyrir því að hægt verði að hrinda þessu í framkvæmd á tilsettum tíma?

Það eru nokkrar aðrar spurningar sem ég bið hæstv. ráðherra um að svara og m.a. hvernig ráðherra sjái fyrir sér skipulag nýsköpunarmála og frumkvöðlastarfs í kjölfar þess að Nýsköpunarmiðstöðin verður ekki lengur til staðar. En áður en ég lýk þessu spurningaflóði vil ég þó óska þeim sem hljóta Nýsköpunarverðlaun Íslands, sem veitt eru í dag, til hamingju en nýsköpunarverðlaunin verða væntanlega veitt í síðasta sinn á þessum degi, a.m.k. í núverandi mynd, þar sem Nýsköpunarmiðstöð er ætlað að hverfa á braut.