151. löggjafarþing — 22. fundur,  18. nóv. 2020.

loftslagsstefna opinberra aðila.

61. mál
[17:56]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður kemur hér inn á atriði sem er mjög mikilvægt og hefur með loftgæði að gera, sem er í raun viðfangsefni sem afskaplega margar borgir úti um allan heim eru að glíma við og tengist beint loftslagsmálunum. Þegar tekist er á við loftslagsmál er það einmitt líka oft gert með tilliti til loftgæða. Það er unnið eftir loftgæðaáætlun sem umhverfis- og auðlindaráðuneytið setti fyrir nokkrum árum. Þar hafa sveitarfélögin í raun mjög stórt hlutverk, eins og hv. þingmaður kom inn á. Ef ég man þetta rétt þá eru einhverjar heimildir í lögum fyrir sveitarfélögin til að grípa til aðgerða, til að reyna að tryggja að hluti af íbúum sé heima fyrir þegar um svona ástand er að ræða. En hér er ég spurður hvað mér finnist um að útbúa kerfi sem gæti fléttað þetta tvennt saman, þ.e. að hluti af stefnu um loftslagsmál hjá stofnunum gæti verið tengdur við svona gráa daga. Ég hef alveg heyrt vitlausari hugmynd en það og það er eitthvað sem mætti alveg skoða. Þannig gengi hið opinbera enn og aftur á undan með góðu fordæmi.

Mig langar aðeins að koma inn á það sem við vorum að ræða hér áðan varðandi stefnumótun opinberra aðila. Ég held að á heildina litið sé það verkefni, sem við stóðum að í sameiningu í fyrra að setja í lög, í mjög góðum farvegi. Það er búið að keyra þetta í prufufasa þannig að leiðbeiningar séu raunhæfar og praktískar og ýti undir metnað. Ég bind miklar vonir við að við munum ná árangri með skjótum hætti og hið opinbera sýni þannig þetta nauðsynlega fordæmi líkt og Stjórnarráðið gerði með útgáfu loftslagsstefnu strax árið 2019.