153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[18:28]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég fletti því aðeins upp í dagbókinni minni hvernig veðrið hefði verið 15. desember í fyrra. Það var ekkert spes, skýjað, rigndi smá, kannski óvenjuhlýtt miðað við miðjan desember. En kveðjurnar sem ríkisstjórnin sendi öryrkjum þann dag voru hins vegar mjög kaldar. Þá mælti hæstv. fjármálaráðherra fyrir frumvarpi til fjáraukalaga þar sem ekki var stafkrókur um það sem öryrkjar voru að fara fram á, eingreiðslu fyrir jól til að fólk næði endum saman. Við spurðum ráðherrann út í þetta. Og hvað sagði formaður Sjálfstæðisflokksins þá? Þið getið bara spurt félagsmálaráðherra, hann fer með þetta. Hvað gerðum við þá? Við mættum hingað í fundarstjórn og sögðum: Getum við fengið félagsmálaráðherra í húsið? Við þurftum að mæta nokkrum sinnum í pontu og biðja um það. Hvað gerðist á endanum? Maðurinn mætti. Maðurinn kom í salinn. Maðurinn stóð hér í pontu, eitthvað sem hæstv. dómsmálaráðherra lætur eins og sé goðgá, sé ekki hægt að gera í máli sem einhver annar ráðherra hefur mælt fyrir. (Forseti hringir.) Formaður Sjálfstæðisflokksins mælti með því að ráðherra kæmi í salinn og svaraði fyrir sinn þátt (Forseti hringir.) alveg eins og við erum að fara fram á núna. Við erum (Forseti hringir.) að fara fram á að sami ráðherra kom í salinn og svari fyrir sinn þátt í þessu frumvarpi. Þorir hann því ekki, ekki frekar en nokkur einasti þingmaður (Forseti hringir.) Vinstri grænna eða Framsóknar þorir að tala í þessu máli? Hvað er að?

(Forseti (LínS): Forseti minnir á að ræðutími um fundarstjórn forseta er ein mínúta en ekki ein og hálf mínúta.)