136. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2008.

þorskeldi.

[15:49]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Karli V. Matthíassyni fyrir að taka þetta mál upp á þingi í utandagskrárumræðu, þ.e. möguleika í framtíð þorskeldis og hvernig hið opinbera geti stutt við þróun þess atvinnuvegar. Ég tel að við eigum mikla möguleika í að þróa þorskeldi sem atvinnugrein þótt það gerist ekki eins og hendi verði veifað. Þar mun þurfa nokkuð langan og öruggan þróunarferil áður en við getum vænst þess að slík atvinnugrein geti staðið sjálf undir sér. Ég vil því taka undir hvatningarorð hv. þm. Karls V. Matthíassonar um að hið opinbera verður að koma að stoðgreinum sem þessari og að því undirbyggja greinina.

Ég kynntist þessu rækilega þegar við vorum að byggja upp bleikjueldið en það var þegar ég var skólastjóri á Hólum. Þá var farið í fjöldamörg vötn á Íslandi og leitað að stofnum sem hentuðu best til eldis og síðan voru þeir þróaðir og kynbættir áfram. Sama hygg ég að þurfi að gera í þorskeldinu og þess vegna held ég að það sé eðlileg krafa að hið opinbera beri ábyrgð á grunngerðinni eins og hæstv. ráðherra sagði en líka á grunnþróunarvinnunni. Atvinnugreinarnar verða að sjálfsögðu þátttakendur í þessu þróunarstarfi en fjárhagsleg ábyrgð verður að vera á ríkinu hvað þennan þátt varðar. Síðan þegar komið er að grunnþróunarstiginu þá geti atvinnufyrirtækin komið að málum og þá þurfi það að vera á sem breiðustum grunni, (Forseti hringir.) ekki að bara eitt, tvö eða þrjú stórfyrirtæki fái að einoka þetta heldur að sem flestir fái að taka þátt í því og sem víðast þar sem möguleikar eru, frú forseti.