137. löggjafarþing — 22. fundur,  18. júní 2009.

birting eignasafns að baki Icesave-skuldbindingum.

[13:54]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Það er skoðun mín að lánshæfismatið muni fremur batna við þennan samning heldur en hitt ef þessi samningur liggur fyrir. (Gripið fram í.) Það er mat bæði fjármálaráðuneytisins ...

(Forseti (ÁRJ): Gefa ræðumanni hljóð.)

... og Seðlabankans að eftir að þessi samningur verður gerður megi ætla að lánshæfismatið verði betra en það var á meðan samningurinn lá ekki fyrir.

Varðandi eignirnar þá verð ég að treysta sérfræðingum sem ég hef rætt við um þessi eignasöfn að þau séu með þeim hætti sem hér hefur verið lýst, að 75–95% af eignunum muni geta gengið upp í þessar skuldir. Og ef hægt eitthvað er hægt að opna það nákvæmlega þannig að þingmenn geti farið ofan í það og það er ekkert sem hindrar það finnst mér alveg sjálfsagt að gera það. Vegna þess að ég vil hafa eins mikið gagnsæi í þessu öllu og hægt er, þannig að ef ekkert hindrar það mun ég að sjálfsögðu beita mér fyrir því.

Ég hef farið ofan í þetta með sérfræðingum sem hafa farið nákvæmlega yfir þetta með mér og ég treysti þessum sérfræðingum að þeir hafi rétt fyrir sér í þessu efni. Það er nú svo að bæði forsætisráðherra og aðrir hafa kannski ekki tíma til að leggjast yfir einstaka hluti í smáatriðum og verða að geta treyst sérfræðingum í þessu efni sem ýmsum öðrum. (Gripið fram í.)

Ég treysti því sem fyrir mig hefur verið lagt í þessu, að eignasafnið dugi eins og við höfum farið yfir og síðan er þetta öryggisákvæði, sem ég bið hv. þingmenn að vanmeta ekki, að ef gjaldþol þjóðarinnar fer yfir það sem það er eða var í nóvember 2008, þá getum við tekið allan þennan samning upp. Ég bið hv. þingmenn um að vanmeta það ekki. (Gripið fram í: … gjaldþrot.)