145. löggjafarþing — 22. fundur,  19. okt. 2015.

húsnæði St. Jósefsspítala.

222. mál
[16:48]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Mér finnst að gefa eigi mönnum heimild til að sletta þegar þær eru svona góðar, sletturnar. Þetta er nefnilega hárrétt hjá hv. þingmanni að ef menn finna ekki not fyrir þessa byggingu þá eiga þeir að leyfa bænum að reyna. Það nýjasta í þessu er að bærinn hefur reynt mjög mikið að fá bygginguna til umráða en það hefur ekki gengið eftir og ríkið hefur ekki viljað gefa það eftir hingað til. Nú hefur bæjarráð Hafnarfjarðar samþykkt að senda tillögu um það til bæjarstjórnar að kalla eftir því að skipuð verði forvalsnefnd sem bæði Hafnarfjarðarbær og ríkið eiga sæti í og þeirri forvalsnefnd verði fengið það verkefni að finna fasteignunum nýtt og viðeigandi hlutverk í þágu nærsamfélagsins í Hafnarfirði og að horfa eigi til alls skipulags svæðisins sem tilheyrir spítalanum og byggingunum öllum í samráði við hagsmunaaðila.

Það er auðvitað meira. Talað er um líka að fyrsta verkefnið verði að undirbúa að hrinda í framkvæmd forvalsferli þar sem áhugasömum verði gefið tækifæri til að koma með hugmyndir um nýtingu spítalans. Þarna er Hafnarfjarðarbær, held ég, að velta upp mjög áhugaverðri leið um samstarf millum ríkisins og sveitarfélagsins til að koma einhverri hreyfingu á þessi mál. Það virðist hljóma alla vega hér eins og þau séu þá fallin frá þeirri kröfu að það verði tengt við heilbrigðisþjónustu. Þá hljóta þessi sjónarmið að fara ágætlega saman og ég held að það hljóti að vera stuðningur við það hér að reyna að koma einhverri hreyfingu í gang svo að þessi bygging standi ekki auð. Þetta er ekki bara málefni Hafnarfjarðar, þetta er málefni okkar allra, því að þetta er alveg gríðarlega merk bygging í okkar sögu. Ég held að okkur hljóti að vera sómi að því að gera eitthvað í þessu og ég held að ráðherra skorti ekki pólitískan stuðning héðan í því verkefni.