149. löggjafarþing — 22. fundur,  18. okt. 2018.

framtíð íslenskrar peningastefnu, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[11:47]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra ágæta yfirferð yfir þessa skýrslu. Ég tek undir orð hennar, auðvitað eru engar töfralausnir í þessu frekar en öðru. En reynsla okkar af sjálfstæðri peningastefnu yfir heila öld er afleit, eins og þessi skýrsla dregur svo vel fram. Í verðbólgumarkmiði undangenginna tveggja áratuga er meðalverðbólga okkar liðlega 4%, um það bil 2,5 % hærri að meðaltali en á hinum Norðurlöndunum, og vaxtastigið hér er að meðaltali yfir allt þetta tímabil nærri 5% hærra en í nágrannalöndum okkar.

Það er kostnaðurinn sem heimilin og fyrirtækin bera af krónunni og þessi vaxtamunur er enn þá þó svo að við teljum okkur hafa náð árangri tímabundið í baráttu við verðbólgu, sem er reyndar að þurrkast út mjög hratt núna þegar krónan er tekin að veikjast aftur, sem hún gerir svo vel, hún fellur.

Það leiðir hugann að því sem hæstv. forsætisráðherra kemur inn á og er einn af lykillærdómunum sem skýrsluhöfundar draga, þ.e. pólitískur stuðningur peningastefnu. Það er alveg rétt sem hér hefur komið fram að þessari skýrslu var of þröngur stakkur sniðinn. Hún hefði að sjálfsögðu átt að taka evruna líka, en um það var ekki pólitískt samkomulag í þessari ríkisstjórn.

En við eigum seðlabankaskýrsluna til viðmiðunar.

Þess vegna er fyrsta spurning mín til forsætisráðherra: Væri ekki eðlilegt, til þess að tryggja pólitískan stuðning við þá stefnu sem við mörkum okkur núna í peningamálum fram á veginn, að þingið taki þetta mál til umfjöllunar en ekki hópur embættismanna í Stjórnarráðinu? Að þingið fái það verkefni núna að skoða alla okkar valkosti í peningastefnu, þar með talið evruna? Því að það er alveg augljóst að kostnaður samfélagsins er talinn hér í hundruðum milljarða á ári af þeim vaxtamun einum sem við berum af krónunni. Við í þessum sal hljótum að leita allra leiða til þess að lækka hann fyrir heimili og fyrirtæki í landinu.

Þess vegna spyr ég hæstv. forsætisráðherra: Væri ekki eðlilegt að fá þingið strax að málinu? (Gripið fram í: Heyr, heyr.)