137. löggjafarþing — 24. fundur,  22. júní 2009.

Bankasýsla ríkisins.

124. mál
[18:25]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að eyða tíma núna í það að ræða við hæstv. ráðherra um fortíðina. Við erum sammála um að þegar ákvarðanir verða teknar um framtíð fjármálakerfisins þarf að sjálfsögðu að fara yfir reynsluna og læra af henni. Hins vegar er annað atriði sem ég ætlaði að nefna sem hæstv. ráðherra vék að og það varðar mótun eigendastefnu ríkisins við þær aðstæður sem við búum við núna. Ég vildi bara segja að ég fagna því að hæstv. ráðherra var jákvæður gagnvart því að eigendastefnan yrði tekin til umræðu á Alþingi og að líkur væru á því að sú stefna sem kynnt verður geti tekið breytingum í ljósi þeirra athugasemda sem fram koma. Mér finnst mjög mikilvægt að þetta sé áréttað hérna vegna þess að hér er auðvitað um að ræða mjög afdrifaríkar ákvarðanir varðandi þessa eigendastefnu. Þær skipta verulegu máli, þetta kemur víða við í þjóðfélaginu og þess vegna er mjög eðlilegt að Alþingi komi sterklega að mótun þessarar stefnu. Ég held að sú leið sem hæstv. ráðherra nefnir hér að ríkisstjórnin eða ráðherrann kynni eigendastefnu sína og hún komi til umræðu á Alþingi og stefnan geti þá tekið breytingum í ljósi þeirra sjónarmiða sem koma fram í þinginu. Ég held að þetta geti verið ágæt leið til að nálgast þetta. Ég held að það sé mjög mikilvægt að þessi stefna komi fram sem fyrst og þess vegna ítreka ég það sem ég áður sagði að það er fagnaðarefni að ráðherra boðar það að þessi stefna verði kynnt innan mjög skamms tíma.