149. löggjafarþing — 24. fundur,  24. okt. 2018.

störf þingsins.

[13:45]
Horfa

Valgerður Gunnarsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Þessi dagur er merkilegur í sögu kvenna á Íslandi og allra þeirra sem hafa barist fyrir jafnrétti kynjanna. 24. október 1975 er mér minnisstæður. Hann markaði upphaf hjá mörgum konum, upphaf jafnréttis, sjálfstæðis og þess að þora að stíga nauðsynleg skref í átt til þess að hlustað væri betur á rödd kvenna.

Fjörutíu og þrjú ár eru síðan einstakar konur tjáðu í fyrsta sinn skoðanir sínar á eigin stöðu og óskuðu breytinga. Það var stórt skref á þeim tíma fyrir þær sem einstaklinga. Við skulum ekki gleyma því.

Þann 24. október 1985 héldum við konur í Þingeyjarsýslum mikla hátíð allan þann dag og fram á kvöld í félagsheimili Húsavíkur til að minnast 10 ára afmælis kvennafrídagsins. Það var mjög fjölmennt og gríðarlega mikil stemning. Ræður voru haldnar og réttindi kvenna voru krufin. Við tókum yfir Víkurblaðið og það var eingöngu helgað konum. Við fundum áþreifanlega fyrir samhug og systrakærleik og þetta varð reyndar upphaf að fleiru sem teygir sig til samkomu þar í dag.

Barátta fyrir réttindum íslenskra kvenna á sér miklu lengri sögu og við erum þakklát þeim frumkvöðlum sem ruddu veginn fyrir fjöldann sem kom á eftir. Margt hefur áunnist á þessum tíma og sumt svo sjálfsagt að enginn man eða veit að það hafi verið á annan veg. Hins vegar er staðan líka sú að í dag erum við að glíma við ótrúleg viðhorf til kvenna og hvað sé leyfilegt í samskiptum milli kynjanna. Hlutgerving kvenna er víðar og lúmskari en við gerum okkur grein fyrir. Sífellt koma upp mál þar að lútandi og það er algerlega óásættanlegt. Gagnvart þeim viðhorfum hafa konur skorið upp herör um allan heim. Ég tel að það sé afar mikilvægt að í uppeldi barna okkar sé lögð áhersla á jafnrétti, virðingu (Forseti hringir.) og jafnvægi í milli og í samskiptum kynjanna. Til hamingju með daginn öll.