150. löggjafarþing — 24. fundur,  23. okt. 2019.

lyfjalög.

266. mál
[17:58]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur fyrir andsvarið. Það kann vel að vera að í mörgum öðrum löndum séu þessar reglur liprari og raunar kemur það fram í greinargerðinni. Ég og hv. þingmenn höfum örugglega einhvern tímann heimsótt lönd þar sem svo er. En mér finnst það í sjálfu sér ekki vera öflugustu rökin. Ég sé ekki að jafnvel með samþykkt frumvarpsins eða einhvers konar breytingu á lögum sé víst að við ættum að færa okkur nær sumum öðrum löndum í sambandi við notkun á lausasölulyfjum, alls ekki. Í prinsippinu held ég að það sé kannski betra fyrir fólk, sérstaklega einstaklinga sem taka margar tegundir, að ráðfæra sig við einhvern sem getur upplýst viðkomandi um hvað sé líklegt að verði og hvernig, og þá sérstaklega með tilliti til auka- og milliverkana. Þingmaðurinn hefur vafalítið heyrt um það að sumir fara jafnvel ekki til lækna, sækja ekki á heilsugæsluna, geta jafnvel ekki fengið tíma þegar þeim finnst þeir þurfa þá. Þá kannski fara þeir í búð og kaupa sér lausasölulyf. Það val sem þar verður er ekki endilega alltaf byggt á því sem kynni að vera heppilegast fyrir viðkomandi einstakling í hvert skipti. Þess vegna er fræðslan á staðnum svo mikilvæg. Ég veit að hv. þingmaður hlýtur að vera mér sammála í því.