151. löggjafarþing — 24. fundur,  24. nóv. 2020.

niðurskurður fjárframlaga til Landspítala.

[13:48]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég tek undir þau sjónarmið sem fram koma í máli þingmannsins um að það sé jákvætt að ráðast gegn undirmönnun. Mönnunarvandinn er auðvitað eitt af stærstu viðfangsefnum heilbrigðiskerfisins á Íslandi, eins og heilbrigðiskerfa í heiminum almennt. Þess vegna er mönnun og menntun heilbrigðisstétta eitt meginviðfangsefni heilbrigðisþings nú á föstudaginn og eitt af forgangsmálunum sem ég hef lagt áherslu á og lögð er áhersla á í heilbrigðisstefnu.

Varðandi freistnivanda þá myndi ég ekki kalla það freistnivanda sem er kannski frekar bara pólitískur áherslumunur. Freistnivandi er ekki sérstaklega fólginn í pólitískum áherslumun, en við erum öll meðvituð um þennan pólitíska áherslumun sem hér erum á Alþingi, vegna þess að sú umræða hefur verið mjög einkennandi fyrir pólitíska vettvanginn á Íslandi á undanförnum árum og áratugum.