154. löggjafarþing — 24. fundur,  7. nóv. 2023.

stjórn fiskveiða.

68. mál
[16:12]
Horfa

Flm. (Inga Sæland) (Flf):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006, tilhögun strandveiða. Það skal tekið fram að öllum þingheimi, kjörnum fulltrúum sem ráðherrum, var boðið að vera meðflutningsmenn okkar á þessu máli en því miður var útkoman sú að að við erum hér ein sem oft áður, þingmenn Flokks fólksins. Með mér á þessari tillögu eru því þau Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Eyjólfur Ármannsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Jakob Frímann Magnússon og Tómas A. Tómasson.

1. gr. frumvarpsins orðast svo:

„Eftirfarandi breytingar verða á 6. gr. a laganna:

a. Lokamálsliður 2. mgr. fellur brott.

b. 1. tölul. 6. mgr. fellur brott.

c. Við 8. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Heimild þessi gildir þrátt fyrir að búið sé að veiða upp í það aflamark sem ráðstafað er til strandveiða innan fiskveiðiársins skv. 1. mgr. 6. gr. a.“

2. gr.: „Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Mál þetta var áður flutt á 150., 151., 152. og 153. löggjafarþingi en náði ekki fram að ganga. Hér stend ég sem sagt og er að berjast fyrir einföldu réttlætismáli í fimmta sinn. Það hafa borist einhverjar umsagnir með málinu áður, bæði umsagnir eins og frá Strandveiðifélaginu Króki, sem lýsti yfir stuðningi við frumvarpið og kallaði eftir frekari breytingum á strandveiðikerfinu, einnig frá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi, en þau lýstu hins vegar áhyggjum af efni frumvarpsins og töldu að kerfið óbreytt dygði til að tryggja skilvirkar strandveiðar. Það kemur náttúrlega engum á óvart því að við vitum að stóru sjávarútvegsfyrirtækin hafa gjarnan viljað leggja bara strandveiðarnar af og hirða til sín það litla aflamagn sem þeim er úthlutað. Á 152. löggjafarþingi barst umsögn frá Landssambandi smábátaeigenda. Í umsögninni lagði sambandið áherslu á að lögfesta þyrfti rétt til veiða í 48 daga.

Með frumvarpi þessu er lagt til að fellt verði brott ákvæði um strandveiðar í lögum um stjórn fiskveiða sem setur þau skilyrði að óheimilt sé að stunda veiðar föstudaga, laugardaga og sunnudaga og að ráðherra geti með reglugerð bannað strandveiðar á almennum frídögum. Það er nefnilega svolítið kostulegt að stjórnsýslan skuli ætla að ákveða hvenær strandveiðisjómaður telur að það sé hyggilegast og best fyrir sig að róa til fiskjar. Það er athyglisvert miðað við að við skulum búa hér á Íslandi þar sem veður eru oft válynd, að við skulum ekki einungis ætla að ákveða hvaða daga strandveiðisjómenn og smábátasjómenn eigi að róa heldur sé það þannig að ef það gefur ekki á bátinn hina dagana sem þeir mega fara út þá geti þeir ekki nýtt sér einhverja aðra daga, þá detti þeir bara brott. Þannig að þessir yfirlýstu 12 dagar sem venjan er, sem eiga að vera þeirra tækifæri til að sækja sjóinn, 12 dagar í mánuði, 48 dagar á fiskveiðiárinu: Nei, elskulegur strandveiðisjómaður, það erum við sem vitum betur hérna. Við ætlum að ráða því. Í rauninni er það sárara en tárum taki, þetta endalausa stýrikerfi sem er í rauninni í þessu tilviki ekki til neins nema til óþurftar.

Við leggjum einnig til að strandveiðar verði áfram heimilar þrátt fyrir að búið sé að veiða upp í það aflamark sem ráðstafað er til þeirra innan fiskveiðiársins. Og af hverju gerum við það? Vegna þess að þannig verður strandveiðimönnum tryggður réttur til að veiða í 48 daga á hverju veiðitímabili. Og finnst það einhverjum ofrausn að tryggja strandveiðisjómönnum 48 daga af 365 daga almanaksárinu? Ekki Flokki fólksins í það minnsta. Það kann vel vera að öðrum hér á hinu háa Alþingi þyki það en ekki Flokki fólksins. Við höfum barist fyrir því frá því að flokkurinn varð til, það hefur verið okkar baráttumál, meira að segja það langt gengið að við viljum frjálsar handfæraveiðar. Það er ekki flóknara en það. Við verðum að bera virðingu fyrir hinum brothættu byggðum hringinn í kringum landið. Við viðurkennum hvers lags óáran hefur átt sér stað hjá litlum sjávarplássum sem í rauninni eiga mörg hver í dag í vök að verjast, hvernig búið er að mergsjúga þessi litlu samfélög sem hafa reitt sig eingöngu á sjóinn. Það er sárara en tárum taki að þurfa að horfa upp á hvernig í raun og veru sérfræðingar að sunnan, eins og við köllum þá, vita allt betur en allir aðrir. En eitt er það sem við vitum alveg 100%, að krókaveiði, smábáta- og strandveiði, hún mun aldrei ógna lífríkinu í kringum landið. Hér er allt í lagi að koma með stækkandi vélarafl og snurvoð upp í kálgarð, skrapa hér botninn, rústa lífríkinu, eyðileggja kóralana og nefnið það bara. Það er allt í lagi að gera allt svoleiðis sem raunverulega er skaðandi fyrir lífríkið hér í kringum landið, hefur raunverulega óafturkræfar skaðlegar afleiðingar fyrir lífríkið í kringum landið. Ég get ekki skilið hvernig í ósköpunum og hverjum dettur það í hug að ráðast svona að strandveiðimönnum sem flestallir búa einmitt í þessum litlu byggðum.

Með leyfi forseta ætla ég aðeins að tala meira um það sem kemur fram í greinargerðinni, eins og t.d. að heildarviðmið afla til strandveiða sumarið 2018, fyrir fimm árum síðan, var 10.200 tonn af óslægðum botnfiski. Þá voru um 548 bátar á strandveiðum og var heildarafli þessara báta 9.396 tonn. Þá voru 804 tonn af kvótabundnum tegundum óveidd af þeim heimildum sem voru ætlaðar til strandveiða akkúrat það sumar, fyrir fimm árum síðan. Heildarþorskaflinn á tímabilinu var sem sagt 9.075 tonn. Miðað við aflasamsetningu og meðalverð strandveiðiafla sumarið 2018 má ætla að verðmæti óveidds þorsks hafi numið um 200 millj. kr., hvorki meira né minna. Það munar um minna.

Það sama á við um strandveiðiárið 2019. Á því ári var strandveiðiflotanum, sem þá var 623 bátar, þarna voru þeir orðnir örlítið fleiri, heimilt að veiða 11.100 tonn af óslægðum botnfiski í kvótabundnum tegundum. Alls veiddust þá 9.700 tonn. Það voru sem sagt um 1.350 tonn óveidd í lok strandveiðiársins 2019.

Ef við tölum aðeins lengur um það hvernig þessi þróun hefur verið á þessum síðustu fimm árum þá voru á strandveiðiárinu 2020 668 bátar samtals sem stunduðu strandveiðar. Þeim hefur því smám saman fjölgað örlítið. Þá veiddu þeir samtals 11.840 tonn. Þar af voru 10.738 tonn af þorski. En veiðarnar voru stöðvaðar þann 19. ágúst eða tveimur vikum fyrir áætluð lok tímabilsins. Svo komum við að strandveiðiárinu 2021, fyrir tveimur árum, en þá veiddust 12.170 tonn og þar af 11.159 tonn af þorski og þá eru veiðarnar stöðvaðar 18. ágúst það ár, einnig tveimur vikum fyrir áætluð lok tímabilsins. Svo aftur á móti síðastliðið ár, árið 2022, veiddust 12.557 tonn yfir strandveiðitímabilið, þar af 10.981 tonn af þorski. Veiðar voru stöðvaðar 21. júlí eða hvorki meira né minna en réttum sex vikum fyrir lok tímabilsins. Árið 2023, sumarið sem var að líða, þá veiddust 11.352 tonn yfir strandveiðitímabilið. Þar af voru 9.952 tonn af þorski. Veiðar voru stöðvaðar hvorki meira né minna en 12. júlí eða réttum sjö vikum fyrir lok strandveiðitímabilsins.

Það er umhugsunarefni að árin 2018 og 2019 hafi ekki tekist að nýta aflaheimildir sem úthlutað er til strandveiða. Ástæðurnar geta verið af ýmsum toga en náttúrulegar sveiflur vega þar þyngst. Þar ber þá helst að nefna fiskgengd og gæftaleysi. Í gildandi lögum um stjórn fiskveiða eru líka lagðar verulegar takmarkanir á veiðigetu strandveiðiflotans. Þar má nefna að einungis má veiða ákveðna daga í viku hverri í maí, júní, júlí og ágúst. Veiðidagar á hvern bát eru að hámarki 12 í hverjum mánuði. Aðeins má nota handfærarúllur og ekki fleiri en fjórar í hverjum bát. Tímatakmarkanir eru á hverri veiðiferð og hámarksafli í veiðiferð er 650 kg þorskígildi af kvótabundnum tegundum. Eins og við sjáum þá eru alls staðar girðingar. Það er verið að girða allt af, það er verið að passa allt annað en að allur afli fái að komast að landi. Það er verið að stöðva menn og konur og alla í að sækja sjóinn og stunda strandveiðar eins og kostur er. Þessi tilhneiging sem við erum að horfa upp á, þessi þróun frá því að við gátum nýtt atvinnufrelsisákvæði stjórnarskrár og unnið við það sem okkur lysti hverju sinni, að það skuli vera svo gjörsamlega búið að sópa því út af borðinu með þessu ofbeldi gagnvart strandveiðum er með hreinum ólíkindum.

Þess vegna eru ákveðnir þættir sem ætti nú kannski að fara að velta upp, eins og t.d. byggðakvóta sem Byggðastofnun úthlutar. Hvað er hún að gera með að valsa um með 3.200 tonn og koma því hingað og þangað? Við getum sagt, innan gæsalappa, að markmiðið með byggðakvótanum frá Byggðastofnun sé einmitt að styðja við brothættar byggðir en það hefur sannarlega verið annað uppi á teningnum oft og tíðum, því miður. Við höfum mýmörg dæmi um það að nákvæmlega þessi byggðakvóti, sem á að styðja við brothættar byggðir, sjávarbyggðir, hann hafi nú ratað í fangið á mjög svo valdamiklum stórútgerðum sem hafa ekki landað einum einasta sporði í litla byggðarlaginu sem tonnunum var ætlað að vera landað á og áttu að nýtast til að byggja upp og styðja við atvinnu og grósku í því bæjarfélagi. Þannig að það er kannski kominn tími til að velta því upp hvort hreinlega eigi ekki að taka þessi tonn og koma þeim inn í strandveiðipottinn.

Við í Flokki fólksins segjum að það eigi ekki að stöðva veiðar þó að búið sé að veiða 10.000 tonn eða 11.000 tonn. Það á ekki að stöðva veiðar fyrr en eftir 48 daga veiðitímabil. Það á líka að gefa strandveiðisjómönnum val um það hvaða 12 daga mánaðar eða þrjá daga í viku þeir kjósa að sækja sjóinn. Það á ekki að vera einhver sérfræðingur að sunnan eða ráðherra, trónandi í sínum ráðherraturni, sem á að taka ákvörðun um það. Það er ósanngjarnt, það er óréttlátt, það er óskilvirkt og það er eiginlega til háborinnar skammar hvernig er verið að níðast á þessari atvinnugrein. Það getur vart talist þjóðhagslega hagkvæmt að á hverju einasta sumri skuli í rauninni vera slengt svona gjörsamlega í lás eins og nú hefur sést, bæði í sumar og í fyrrasumar. Við í Flokki fólksins viljum náttúrlega, eins og ég hef áður sagt, virðulegi forseti, það fer ekkert á milli mála, við viljum berjast fyrir frjálsum handfæraveiðum. Við viljum absalút berjast fyrir frjálsum handfæraveiðum.

Þetta frumvarp, sem ég er að mæla hér fyrir í fimmta sinn án þess að nokkur einasti þingmaður hafi minnsta áhuga á því að styðja við það þrátt fyrir að sumir séu gasprandi um það að auðvitað vilji þeir standa með strandveiðisjómönnum — auðvitað vilja þeir þetta og auðvitað vilja þeir hitt til hátíðarbrigða, svona korter í kosningar. En staðreyndin er allt önnur þegar kemur að því að standa við stóru orðin. Þegar kemur að því að gera hlutina og framkvæma hlutina og láta þá ganga upp, þá hafa allir lagt á flótta, pakkað saman og flúið nema Flokkur fólksins. Við erum tilbúin að standa fyrir okkar málum. Við erum tilbúin í það réttlæti og þá sanngirni sem við teljum að litlu sjávarplássin okkar og strandveiðisjómennirnir okkar eigi rétt á. Og við munum halda áfram hér eftir sem hingað til að berjast fyrir þessu máli.

Við skulum t.d. tala aðeins um 48 daga. Það er lágmarkið sem við gætum gert hér, löggjafinn, að tryggja þeim þessa 48 daga til strandveiða. Það er algjört lágmark líka að við látum þá sjálfa velja sína daga og komum um leið í veg fyrir það að menn séu að róa til fiskjar í jafnvel mjög vondum veðrum og ofsaveðri, bara til þess að missa nú ekki þennan dag. Það kostar mikið fjármagn að halda úti smábátaútgerð. Það kostar ekki síður mikið fjármagn fyrir þessa aðila, sem standa í sinni litlu útgerð, en fyrir alla aðra. Það kostar að vera til og róa til fiskjar á sínum strandveiðibát. Það er því orðið frekar dapurt ef við gerum allt sem í okkar valdi stendur, eins og löggjafinn gerir hér, til að reyna að láta þetta útgerðarform brenna út, eins og t.d. það að skikka þá til að drífa sig í land þegar þeir eru komnir með 650 kíló. Maður veltir óneitanlega fyrir sér: Hvað fer mikið magn af fiski aftur í sjóinn? Hversu öflugt er brottkastið hjá stórútgerðinni, sem er náttúrlega mörgum sinnum meira? Og hversu mikið brottkast er þegar þú ert einungis að veiða 650 kíló og þú færð hæsta verðið fyrir stórfiskinn? Hvað gerirðu við litla fiskinn sem slæðist með? Kemur einhver með hann að landi? Að sjálfsögðu ekki. Þér er refsað fyrir að koma með hann að landi. Það eru tugir prósenta sem fara steindauðir í sjóinn aftur af veiddum afla, sem verður eðlilega þess valdandi að Hafró veit ekkert hvort hún er að koma eða fara þegar hún er að gefa út sínar tölur og sínar veiðiheimildir með tilliti til þess hvað hefur verið veitt á árinu. Og ég ætla ekki að fara í þetta blessaða togararall þeirra sem er nú orðið frekar úreltur söngur að mínu mati. En hvað um það, við getum gert betur og okkur er í lófa lagið, löggjafanum, þó það væri ekki nema að tryggja þessa 48 daga.

Ég ítreka: Þetta er einfalt. Þetta er sanngirnismál. Þetta er réttlætismál. Þetta styður við brothættar sjávarbyggðir í landinu. Það eru mjög mörg afleidd störf sem eru einmitt í kringum þetta útgerðarform ekki síður en annað. Og þrátt fyrir að þetta séu um 10.000–12.000 þorskígildistonn sem hugsanlega myndu koma að landi þykja mér smábátasjómenn, strandveiðisjómenn ekki síður vel að því komnir en hinir sem eru að mergsjúga hér allt, hundruð þúsunda tonna, sem er stórútgerðin. Stórútgerðin ætti í rauninni að taka saman höndum við smábátasjómenn og bera virðingu fyrir því formi sem þeir eru að setja sér til sinna veiða. Það er eiginlega fáránlegt hvernig maður hefur orðið vitni að því ítrekað hvað þeir reyna að leggja stein í götu smábátasjómanna.

Eins og ég segi þá erum við hér, þingmenn Flokks fólksins, á þessu máli og við höldum áfram. Strandveiðar eru óumdeilt ómetanleg lyftistöng fyrir sjávarbyggðirnar allt í kringum landið, eins og ég hef sagt, sjávarbyggðir sem margar hverjar eiga í vök að verjast og hafa verið skildar eftir í sárum eftir að núgildandi framsalsheimildir og kvótakerfi hafa gert það að verkum að allar aflaheimildir til stærri útgerðar hafa verið seldar eða hrifsaðar þaðan á brott. Við erum að horfa upp á það hvernig þessar litlu sjávarbyggðir hafa verið skildar eftir í sárum. Þá er nú nærtækast að nefna þetta snilldarframtak sem við fengum að sjá, Verbúðina, frábæru framhaldsþættina sem við fengum að sjá í sjónvarpinu, og ég býst við að það sé verið að slá í aðra svoleiðis þáttaröð ef ég þekki það rétt. Þessi þróun virðist halda áfram, að kvótasetja tegundirnar okkar, koma þeim á fárra auðmanna hendur og hrifsa til sín það sem á að vera okkar, sameign allrar þjóðarinnar. En við segjum í Flokki fólksins: Áfram veginn. Við vildum sjá frjálsar handfæraveiðar. Það myndi skipta gríðarlega miklu máli og það myndi gjörbreyta starfsumhverfi og lífinu í þessum litlu sjávarplássum sem eiga í vök að verjast. Þetta frumvarp er hins vegar lítill liður, smáskref í áttina að réttlátara og sanngjarnara strandveiðikerfi þar sem við komum til móts við strandveiðisjómenn, sem hafa ekki beðið um mikið, þeir hafa verið mjög hógværir í sínum kröfum, að tryggja þeim 48 daga af 365 dögum á ári. Það myndi fæstum þykja ofrausn, a.m.k. ekki okkur í Flokki fólksins. Þannig að: Áfram veginn.