154. löggjafarþing — 24. fundur,  7. nóv. 2023.

nýsköpunar-, rannsókna og þróunarsjóður ferðaþjónustunnar.

62. mál
[17:20]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég kem hér upp til að fjalla um þessa þingsályktunartillögu sem ég er meðflutningsmaður á, um nýsköpunar-, rannsókna- og þróunarsjóð ferðaþjónustunnar. Mig langar bara að koma hingað til að taka undir þessa ágætu tillögu því að ein af meginstoðum okkar atvinnuvega á Íslandi er ferðaþjónustan og hún er svo virk um allt land. Það er ekki neinn landshluti sem er undanskilinn ferðaþjónustunni.

Við erum með ýmsa atvinnuvegi sem eru kannski meginstoð hvers landshluta, af öllum þeim atvinnugreinum sem eru stundaðar hér við land, en þessa starfsemi er að finna í öllum fjörðum, meira að segja í eyðifjörðum, ég nefni Jökulfirði, uppi á hálendi og út á ystu skerjum. Hana er að finna um allar strendur landsins, upp til sveita og inni í þorpum og bæjum og í höfuðborginni, þannig að það skiptir gríðarlega miklu máli hvernig við stöndum að þessari atvinnugrein. Við höfum kannski ekki fylgt þessu kappi eftir, ferðaþjónustan reis hérna eftir hrun og bjargaði efnahag okkar eftir bankahrunið og við höfum kannski ekki alveg fylgt því eftir sem þarf að gera, bæði til þess að byggja undir þessa stoð og til að nýta hana enn frekar til sjálfbærni og eins að huga að auðlindum okkar því að ferðaþjónustan nýtir viðkvæmur auðlindir. Eins og segir hérna í greinargerðinni: „Íslendingar vita það manna best að nýting auðlinda krefst rannsókna og þekkingar.“ Því held ég að það sé mjög mikilvægt að við séum að hlúa að þessari atvinnugrein til þess að efla hana og styrkja því að það eru engin teikn á lofti um að ferðaþjónustan sé að draga saman seglin eða neitt slíkt. Í framtíðinni getum við jafnvel, ef við verðum fyrir einhverju eða efnahagsástandið í heiminum er þannig að færri myndu sækja okkur heim af ýmsum ástæðum — nú er náttúrlega margt að gerast í hinum stóra heimi. Við lentum í Covid og þá datt náttúrlega ferðaþjónustan niður. Það er kannski erfitt að segja að við viljum fá sem mest út úr hverjum ferðamanni en það er staðreyndin að við viljum að ferðamaðurinn upplifi þessa heimsókn sem best. Hvað getum við gert til þess að nýta hana? Síðan er þetta stuðningur við þá ferðaþjónustuaðila sem eru úti um allt land því að þó að þeir hafi samtök sín á milli þá er mjög gott að geta leitað í rannsóknir, aðgengilegar rannsóknir og þróun til að byggja upp sitt starf og þekkingu í þessum geira. Við sjáum líka alveg teikn um allt land að það er kannski verið að fara aðeins fram úr sér með því að byggja upp einhverjar vinsælar ferðaparadísir á viðkvæmu landi. Er það rétt? Hvernig viljum við sýna landið og hvernig viljum við fórna? Hvað erum við að fá út úr því? Ég held að það sé bara mjög mikilvægt að við stöldrum við og förum í þessa vinnu. Eins og kom fram hjá flutningsmanni, hv. þm. Líneik Önnu Sævarsdóttur, er vissulega mikið gert og það er rannsóknarvinna í gangi, bæði hjá háskólum og Samtökum ferðaþjónustunnar og Ferðamálastofu, það er heilmikið að gerast, en við þurfum að halda heildstætt utan um þessa vinnu.

Ég kom hér upp til að fylgja þessari tillögu úr hlaði með góðum óskum og vonandi að hún nái fram að ganga.