132. löggjafarþing — 24. fundur,  17. nóv. 2005.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[19:01]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Eins og komið hefur fram höfum við komið víða við í umræðunum í dag og eflaust er rétt að alveg mætti skoða hugmyndir um að breyta aðeins formi þessarar umræðu og reyna kannski að hólfa hana eitthvað niður ef svo má segja. Mér sýnist af þeim umræðum sem hafa farið fram að tímabært sé að umræða um Evrópumál fari fram í þinginu, þótt ekki væri nema til að tappa aðeins af kútnum í því máli. Það er greinilegt að háttvirtum þingmönnum liggur margt á hjarta. Þar komu fram athyglisverðar upplýsingar um afstöðu flokkanna sem hafa jafnvel ekki heyrst um nokkurt skeið í þingsal. Þetta hefur því að mörgu leyti verið býsna athyglisverður, áhugaverður og jafnvel skemmtilegur dagur, en umræðan hefur að sjálfsögðu farið dálítið út um víðan völl eins og verða vill. Það er náttúrlega undir hverjum og einum komið hvort honum þykir slíkt leiðinlegt eða einfaldlega krydd í umræðuna.

Virðulegi forseti. Segja má að hæstv. utanríkisráðherra hafi sjálfur slegið tóninn í upphafi máls þegar hann flutti ræðu sína. Þar var að sjálfsögðu komið víða við en oft var umræðan frekar grunn. Sumt olli manni vonbrigðum. Skautað var ansi létt yfir atriði sem eru mikilvæg, t.d. þetta hræðilega stríð í Írak sem aldrei hefði átt að verða og alls ekki með þátttöku okkar Íslendinga. Ég vildi gera að tillögu minni að ríkisstjórnin bæði þjóðina afsökunar á að hafa léð máls á stuðningi við þá ömurlegu styrjöld. Öllum hlýtur að vera ljóst að allar forsendur fyrir því viðbjóðslega stríði voru á sandi byggðar. Ráðamenn okkar voru sennilega blekktir illilega í því máli. Enginn veit betur en þeir sjálfir hvernig sá blekkingarleikur fór fram. Þess vegna væri heiðarlegast að stíga fram og viðurkenna að þetta voru alvarleg mistök. Öllum getur orðið á og ég gæti a.m.k. fyrir mitt leyti tekið það til greina ef menn vilja losna við þennan svarta blett í sögu þjóðarinnar. Það yrði að hafa það þótt það kostaði eitthvað stirðari samskipti við Bandaríkjamenn í kjölfarið. Við því er ekkert að gera.

Virðulegi forseti. Mig langaði aðeins að nota seinni ræðu mína til að tæpa á nokkrum málum. Hæstv. utanríkisráðherra minntist á fríverslunarsamning við vini okkar og frændfólk í Færeyjum. Nú er hæstv. utanríkisráðherra því miður farinn af vettvangi. Hann þurfti að fara í sjónvarpsviðtöl og verður svo að vera. Ég hefði gjarnan viljað spyrja hann að því hvort þessi fríverslunarsamningur við Færeyinga verði ekki tekinn til umræðu í þinginu. Á þingi Norðurlandaráðs sem haldið var í Reykjavík í lok október síðastliðnum kom greinilega í ljós að Færeyingar hafa ýmislegt við þann samning að athuga. Ég veit að samningurinn hefur verið til umræðu í Færeyjum og hefur jafnvel valdið þar nokkrum deilum. Þar munu m.a. vera hlutir varðandi viðskipti með fisk sem Færeyingar hafa verið óhressir með. Það hefði verið ágætt að fá á hreint á hinu háa Alþingi hver staða þess samnings er, hvernig málum er háttað og hvort búið sé að leysa þessi mál við Færeyinga. Eða er þar eitthvað sem enn er óleyst og hvað felst í þessum samningi fyrir okkur Íslendinga? Það væri gott ef þingheimur yrði upplýstur um það. Það er ljóst að Færeyjar, þótt þar sé ekki fjölmenn þjóð, eru mikilvægt svæði fyrir okkur og mikilvægt að halda góðum tengslum við Færeyinga, bæði menningarlegum og viðskiptalegum. Þetta er náttúrlega markaður.

Hér var líka komið inn á hluti varðandi fiskveiðistjórn og hnattrænt bann við botnvörpuveiðum sem hefur verið til umræðu á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í nokkur missiri. Ég var nú sjálfur staddur á því þingi á dögunum og fylgdist með umræðum um þetta mál. Ég vil nota tækifærið hér til að lýsa mig sammála afstöðu íslenskra stjórnvalda í málinu. Ég tel að sú afstaða, að taka ekki undir þetta bann, sé rétt. Það er fyllilega réttmæt afstaða. Ég tel að þessum málum sé miklu betur komið hjá einstökum þjóðum, að þær stjórni þessu sjálfar og geri það af fullri ábyrgð og einurð og þá séu notuð svæðisbundin samtök eins og Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndin, þar sem við Íslendingar höfum starfað um árabil og hefur gengið nokkuð vel, til að ná tökum á botnvörpuveiðum á úthafinu þar sem þess gerist þörf. Við Íslendingar eigum að vera fyrirmynd annarra þjóða í þessum efnum og frekar málsvari þess að svæðisbundin stjórn verði á þessum hlutum en ekki alþjóðlegt hnattrænt bann.

Annað í ræðu ráðherra sem mig langaði að koma inn á, sem ég gerði reyndar fyrr í dag í andsvörum við hæstv. utanríkisráðherra, er staða deilunnar við Norðmenn um hið svokallaða Svalbarðasvæði. Þeir sem fylgjast með fréttaflutningi af þeim málum hljóta að sjá að þar á sér stað ákveðin þróun. Svo virðist sem spenna á milli Norðmanna og Rússa sé að aukast í því máli. Við höfum nýlegt dæmi um togara sem sigldi til Rússlands með tvo norska veiðieftirlitsmenn. Það mál vakti mjög mikla athygli, ekki síst í fjölmiðlum, og undirstrikar það að undir niðri, þótt á yfirborðinu virðist vera gott samkomulag á milli Norðmanna og Rússa á Svalbarðasvæðinu, þá kraumar mjög alvarlega.

Við Íslendingar höfum veifað því flaggi að við hyggjumst fara í málssókn. Það kom fram í máli mínu hér fyrr í dag að ég er frekar óhress með hversu hægt gengur hjá íslenskum stjórnvöldum að undirbúa þá málssókn. Ég hefði haldið að ekki ætti að taka svo langan tíma að undirbúa málssókn í máli sem í raun hefur verið reifað og rætt um margra ára skeið, fjölmargir lögspekingar hafa komið að málinu, gefið álit sitt o.s.frv. Við vitum hver staðan er og ég hefði haldið að það þyrfti ekki að taka mörg ár í að ganga frá lögfræðiálitum og undirbúa málssókn Íslands gegn Noregi fyrir Alþjóðadómstólnum í Haag. Ég tel hreinlega, virðulegi forseti, að dragist þetta mikið lengur þá verði trúverðugleiki okkar Íslendinga í þessu máli í stórhættu, að Norðmenn og aðrar þjóðir hætti hreinlega að taka mark á hótunum okkar — við getum kallað það hótanir. Þeir skynja að við beitum því sem svipu á Norðmenn í samningaviðræðum um síldina þar sem hvorki gengur né rekur en að við meinum ekkert með þessu og ætlum ekki að fara í mál við Norðmenn, að þetta sé bara innantóm hótun, að Ísland sé, eins og ég sagði hér fyrr í dag, pappírstígrisdýr í þessu máli.

En það er alveg ljóst, virðulegi forseti, öllum sem vilja kynna sér þessi mál og fylgjast eitthvað með þeim að Norðmenn eru virkilega að hreiðra um sig í Norðurhöfum og eru að ná þar upp öflugri vígstöðu, já, vígstöðu segi ég og ég stend við það. Á þingi Norðurlandaráðs í Reykjavík nú í lok október hlustaði ég einmitt á ræðu norska varnarmálaráðherrans, Anne-Grete Ström-Eriksen, þar sem hún lýsti í stuttri ræðu stefnu hinnar nýju norsku ríkisstjórnar í varnarmálum. Í lauslegri þýðingu sagði hún að norðursvæðin, þ.e. hafsvæðin, Íshafið, muni verða mikilvægasta strategíska svæði fyrir norsku ríkisstjórnina á komandi árum og að hin nýja ríkisstjórn muni styrkja vinnu sína í því að tryggja sjálfbæra nýtingu á auðlindum, ekki síst fiskveiðiauðlindum en líka orkuauðlindum og það sé markmið Norðmanna að varðveita umhverfi, búsetu og atvinnuþróun á þessum svæðum og að ná betra sambandi við Rússa. Hún talaði einnig um að norska ríkisstjórnin hyggist beita norska hernum í meira mæli en hingað til til þess að halda á lofti kröfum Norðmanna um yfirráð, tryggja stöðugleika á þessum hafsvæðum og þá sérstaklega í norðri.

Mér sýnist vera hægt að lesa á milli línanna í þessu máli að í raun og veru sé komin mjög ákveðin yfirlýsing um að Norðmenn hyggist tryggja og festa mjög í sessi ítök sín á þessum svæðum og nota til þess norska sjóherinn. Norska strandgæslan hefur yfir að ráða 15 skipum í dag. Hún er reyndar sérdeild innan sjóhersins og fjárlagaramminn á henni er, ef ég man rétt, eitthvað í kringum sjö milljarðar ísl. kr. árlega þannig að miðað við okkur Íslendinga er hér við mikið ofurefli að etja. En hvað um það, virðulegi forseti, þegar þetta allt saman er skoðað er alveg augljóst að Norðmenn eru virkilega að koma sér vel fyrir þarna. Þeir hafa líka látið vinna umfangsmiklar skýrslur sem ég hef verið að dunda mér við að lesa, tvær skýrslur sem ég held hér á. Nú veit ég að hæstv. utanríkisráðherra er góður norskumaður og ég vona að hann kynni sér innihald þessara skýrslna, annars vegar er opinber skýrsla nr. 32/2003 og hins vegar er skýrsla sem norska ríkisstjórnin lét gera í fyrra, nr. 30. Báðar skýrslurnar fjalla um möguleika og ögranir sem Norðmenn standa frammi fyrir á norðursvæðinu sem þeir kalla, sem er hafsvæðið norður af Noregi, Barentshafið, jafnvel hafsvæðið vestur af Íslandi, hafsvæðið umhverfis Svalbarða og allt vestur að Jan Mayen. Þetta eru mjög vandaðar skýrslur að mörgu leyti sem hafa verið unnar af sérfræðingum, sérfræðinefndum sem Norðmenn hafa komið á fót og þar sem fjallað er um hlutina í mjög víðu samhengi. Það er verið að fjalla um náttúruauðlindir, sjálfbæra nýtingu, kröfu Norðmanna, tilkall til hafsvæða og landsvæða. Í rauninni er verið að fjalla um samband Norðmanna við aðrar þjóðir. Það er verið að tala um þetta í menningarlegu tilliti og er jafnvel talað um hluti eins og menntun og annað þess háttar. Það er allur pakkinn tekinn fyrir og reynt að líta á þetta heildstætt og Norðmenn eru þá að velta því fyrir sér: Hvaða stefnu ætlum við að hafa á þessum svæðum í framtíðinni? Hvernig ætlum við að undirbúa okkur undir það sem mun koma á þessum svæðum?

Ég tel slík vinnubrögð að mörgu leyti mjög til fyrirmyndar og vil nota tækifærið til að hvetja íslensk stjórnvöld til að láta fara fram svipaða vinnu af hálfu okkar Íslendinga. Það er fyllilega tímabært að við Íslendingar mörkum okkur heildstæða stefnu til lengri tíma. Að þeirri stefnumótun ættu að koma aðilar frá öllum stjórnmálaflokkum og það ætti að kalla til sérfræðinga í hafréttarmálum, auðlindamálum og öðru þess háttar og marka heildstæða stefnu um hvernig við ætlum að haga stefnumótun okkar með tilliti til hafsvæðanna bæði norður og austur af Íslandi. Þarna eru gríðarleg hafsvæði, sennilega mjög miklar auðlindir, ekki minnst við Svalbarða. Við getum verið að tala um gas og olíu og Norðmenn gera það í sínum skýrslum. Ég hef grun um að þeir viti meira en aðrir til að mynda um hugsanlegar gaslindir og olíulindir við Svalbarða og að þar sé að finna gas og olíu, við vitum að þar eru kol í dag. Norðmenn vita eitthvað sem aðrir vita ekki og þeir eru m.a. að tryggja ítök sín á þessum svæðum vegna þess að þeir sjá fyrir sér að í framtíðinni mun þarna fara fram nýting á verðmætum auðlindum sem verða bara dýrmætari og dýrmætari eftir því sem tíminn líður.

Þarna finnst mér okkur Íslendinga algjörlega skorta heildstæða stefnu. Það mundi eflaust líka hjálpa okkur mjög mikið, t.d. í þeirri varnarumræðu sem hefur farið fram í dag, ef við hefðum einhverja heildstæða stefnu með tilliti til þessara svæða. Þau skipta líka máli til að mynda í tengslum við siglingar. Með hlýnandi loftslagi sem við höfum aðeins rætt hér í dag eru mjög miklar líkur á því að siglingaleiðin t.d. norðausturleiðin svokallaða, muni opnast og þá gæti vel farið svo að skipaumferð hér við Ísland mundi aukast stórlega, skipaumferð norður í höf, gamla siglingaleiðin sem Íshafskipalestirnar fylgdu þegar þær sigldu með vopn og vistir frá Íslandi til vígstöðvanna í Rússlandi á árum seinni heimsstyrjaldarinnar. Þessar siglingaleiðir yrðu hugsanlega farnar á ný og síðan siglingaleiðin austur með Síberíu og inn í Kyrrahaf.

Þarna er því að mörgu að hyggja, virðulegi forseti, og ég vil því nota lokaorð mín til að brýna íslensk stjórnvöld til að fara nú að huga meira að Norðurhöfum, að möguleikum þar, og að efla rannsóknir og fara síðan í þá vinnu að marka þjóðinni stefnu til langframa í þessum efnum því að þetta er kannski okkar stærsta utanríkismál.