148. löggjafarþing — 24. fundur,  8. feb. 2018.

sálfræðiþjónusta í opinberum háskólum.

112. mál
[18:14]
Horfa

Flm. (Jón Steindór Valdimarsson) (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að ég og hv. þingmaður séum hjartanlega sammála um tilgang málsins, sem er að bæta þjónustu við ungmenni í skólum sem eiga við vanda af þessu tagi að etja. Ekki skal ég standa í vegi fyrir því að fundinn verði besti farvegur fyrir málið. Það er hins vegar rétt að benda á í því samhengi að sálfræðingur sá t.d. sem starfar í Háskóla Íslands, þótt ekki sé nema í hálfu starfi, er starfsmaður skólans en ekki á vegum heilbrigðisyfirvalda. En auðvitað þarf þetta að tala saman, ég er alveg sammála því. Ég held að ekki sé endilega æskilegt að skólarnir leysi öll vandamálin. Ég held að mjög brýnt sé að gera eins og t.d. Háskólinn í Reykjavík, þar er a.m.k. þokkalega öflug móttaka þar sem nemendur geta talað við fagfólk. Það beinir þá nemendunum áfram innan kerfisins. Ég held að ekki sé æskilegt að stefna í sjálfu sér að því að mikil klínísk aðstoð eða meðferð sé í skólunum sjálfum, en ég held að nauðsynlegt sé að nemendur hafi greiðan aðgang, að auðvelt sé að fá viðtal við sálfræðing á vinnustað sínum eða í sínum skóla og fá fyrsta mat, fyrsta samtal og annað. Kannski eru málin þannig vaxin að hægt er að leysa þau með tiltölulega skjótvirkum hætti, með nokkrum samtölum. Önnur eru erfiðari og þá vísa sálfræðingar nemendum á staði þar sem þeir fá betri og meira viðvarandi þjónustu.