149. löggjafarþing — 24. fundur,  24. okt. 2018.

staða iðnnáms.

[14:40]
Horfa

Ingibjörg Þórðardóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka málshefjanda, hv. þm. Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, fyrir umræðu um mjög svo mikilvægt málefni. Ég ræddi þetta mál reyndar í síðustu viku og þá fjallaði ég einkum um mikilvægi þess að bæta ímynd iðnnáms og að nauðsynlegt sé að breyta viðhorfum samfélagsins til þess. Ég vil ítreka það og minna á að við þurfum ekki enn eitt tímabundna átakið. Við þurfum að láta verkin tala. Ég vil taka fram að ég hef kennt í 15 ár við verkmenntaskóla.

Almenningur þarf að vera upplýstur um að hinir ýmsu möguleikar eru til staðar hvað varðar framhaldsmenntun fyrir iðnmenntað fólk, en við þurfum líka að brjóta múra í menntakerfinu varðandi aðgengi iðnmenntaðra að framhaldsnámi. Af hverju þarf sveinn í húsasmíði sem ætlar að læra byggingatæknifræði að bæta við sig stúdentsprófi til að komast inn? En stúdentinn sem ekkert nám eða starfsreynslu hefur að baki í bygginga- og mannvirkjagreinum hefur gildan aðgang með sínu stúdentsprófi? Af hverju þykir okkur svo sjálfsagt að segja að sveinninn þurfi auðvitað að bæta við sig hinum ýmsu fögum á sama tíma og það hvarflar ekki að okkur að segja að stúdentinn þurfi að bæta við sig þekkingu í faginu? Það er eiginlega galið þegar okkur bráðvantar iðn- og tæknimenntað fólk.

Ein besta leiðin til að efla iðnmenntun er, eins og komið hefur fram, að hefja vegferðina á fyrri skólastigum. Nemendur velja sér námsleiðir í framhaldsskóla þegar þeir eru enn í grunnskóla. Ef við viljum efla iðn- og tækninám þurfum við að auka áherslu á þær greinar í grunnskólum. Því miður er raunin oftar en ekki sú að fjöldi kennslustunda í greinunum er undir lágmarki samkvæmt viðmiðunarstundaskrám grunnskólanna.

Hvers vegna ætti nemandi að kjósa sér nám í grunndeild rafiðna eða málm- og véltæknigreina ef hann veit lítið sem ekkert um hvað það snýst, hefur í raun aldrei fengið tækifæri til að átta sig á því hvort það höfðar til hans?

Að lokum vil ég benda ykkur á frábært samstarfsverkefni Verkmenntaskóla Austurlands og Fjarðabyggðar þar sem 9. bekkingar úr allri Fjarðabyggð fá (Forseti hringir.) vikukynningu í öllum iðngreinum sem kenndar eru í verknámsskólunum.