Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 24. fundur,  27. okt. 2022.

rannsókn á Samherjamálinu og orðspor Íslands.

[11:20]
Horfa

dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Það er auðvitað verulega til umhugsunar að við skulum vera hér að ræða mál sem er til rannsóknar og þingið, eða löggjafinn og framkvæmdarvaldið, á ekki að hafa neina aðkomu að. Fyrirspyrjandi vitnar í fréttaviðtal við Drago Kos, sem leiddi vinnuhóp á vegum OECD gegn mútum, um vandræðagang hér á landi við rannsókn í svokölluðu Samherjamáli og að Namibía sé að draga vagninn í rannsókn á málinu. Ég veit ekki til þess að þessi ágæti maður hafi aflað sér einhverra upplýsinga um rannsóknina hjá þeim sem hafa með hana að gera á Íslandi. Ef ég man rétt kom það fram hjá héraðssaksóknara í fjölmiðlum að hann hefði nú setið með þessum sama Drago Kos í höfuðstöðvum OECD í París í sömu viku og þetta fréttaviðtal við hann birtist án þess að Drago teldi nokkra ástæðu til að spyrja hann einnar spurningar eða ræða við fulltrúa ákæruvaldsins og lýsa áhyggjum sínum. Mér sýnist að þetta viðtal við Drago Kos, yfirmann vinnuhóps OECD um mútur og spillingu, vera það sem helst er vandræðalegt ef hann telur að Namibía dragi vagninn í rannsókn á Samherjamálinu. Rétt er að rifja það upp að rannsókn hér á landi hófst í nóvember 2019 en árið 2015–2016 í Namibíu. Ég hef ekki haft miklar fregnir um rannsóknina og málið þar í landi annað en að sakborningar eru enn í gæsluvarðhaldi. Kannski finnst fyrirspyrjanda og yfirmanni vinnuhóps gegn mútum og spillingu það til eftirbreytni og merki um að þar séu menn að draga vagninn í rannsókninni og sýni gott fordæmi í mannréttindamálum.

Ég veit heldur ekki til þess að héraðssaksóknari sé vanfjármagnaður. Þegar metið er fjármagn til embætta á hverjum tíma er litið til umfangs mála í heild sinni, það eru slík afskipti af einstökum málum í rannsókn að beitt sé fjármunum til að hafa áhrif á þau með beinum hætti. Héraðssaksóknari hefur sjálfur sagt opinberlega að hann sé með fullmannað teymi í rannsókninni og hún gangi sinn gang og vísar til rannsóknarhagsmuna þegar hann hefur ekki talið sér fært að svara frekar um gang rannsóknarinnar.

Hér er spurt um fleira og ég ætla ekki að ræða við fyrirspyrjanda um spillingarvísitölu Þorvaldar Gylfasonar. Vinnubrögð Íslandsdeildar Transparency International eru ekki til eftirbreytni og þar á bæ mega menn vera í sinni pólitík mín vegna.

Ég hef hins vegar miklar áhyggjur af vinnuhópi OECD gegn mútum sem gagnrýnir ríkisstjórnina og dómsmálaráðherra fyrir slaka frammistöðu og áhugaleysi þegar kemur að rannsókn þess máls sem hér um ræðir. Það er þá ástæða til að upplýsa þessa spillingarsérfræðinga í vinnuhópnum og alla sérfræðinga hér á þingi að ákæruvaldið er sjálfstætt í störfum sínum, hvorki dómsmálaráðherra né ríkisstjórnin hafa afskipti af rannsókn einstakra mála. Ef það gerist þá væri hægt að fara að tala um spillingu.

Ég veit ekkert um það hvort rannsóknin hafi dregist óhóflega. Rannsóknir mála eru misumfangsmiklar. Þegar þær snúa að fleiri löndum er líklegt að þær taki lengri tíma en ella. Þótt einhver pólitískur vinnuhópur í OECD eða pólitískir andstæðingar hér á þingi telji eitthvað vandræðalegt er ekki þar með sagt að svo sé. Eina sem mér finnst vandræðalegt er þegar þingmenn vilja ræða rannsókn einstaks sakamáls á Alþingi Íslendinga og kröfu um að stjórnvöld grípi inn í. Slík umræða hefur ekki verið gagnleg í fortíðinni og gjarnan reynst sneypuför. Mér sýnist að þeir sem telja sig vera sérstakir málsvarar mannréttinda og réttarríkisins og baráttumenn gegn spillingu séu algerlega að snúa öllu á haus í þessu máli. Það er áhyggjuefni og sérstaklega vandræðalegt og grafalvarlegt í mínum huga. Auðvitað líta stjórnvöld öll hegningarlagabrot og grun um slík alvarlegum augum. Þess vegna hefur verið lögð sérstök áhersla í ráðuneytinu á að tryggja fjármagn til rannsókna brota og saksóknar til að tryggja eðlilegan málshraða. Það er mannréttindamál og forgangsmál í ráðuneytinu, alla vega eftir að ég kom þangað, og hefur verið.

Það er líka spurt hér um fund með fulltrúum namibískra stjórnvalda um þetta mál þegar tækifæri gefst. Ja, það er nú þannig að dagskrá ráðherra er þétt alla daga og ekki er hægt að bregðast við beiðnum um fund án nokkurs fyrirvara. Svo er það venja þegar menn telja sig vera í opinberum embættisgjörðum til annarra landa að þeir mæli sér mót á fyrir fram ákveðnum tíma en hringi hreinlega ekki bjöllunni eða banki á dyrnar í ráðuneytinu svona fyrirvaralaust. Þannig var það í þessu máli að fundarbeiðni barst að morgni um fund síðdegis sama dags af hálfu þessa namibíska fulltrúa sem hér var og ég gat ekki orðið við þeim fundi.

Hvað varðar umræðuefni fundarins verður það ekki upplýst og þar vísa ég til þeirra laga sem um þetta fjalla en samkvæmt þeim er heimilt að takmarka aðgang almennings að gögnum þegar mikilvægir almannahagsmunir krefjast þess, enda hafi þau að geyma upplýsingar um samskipti við önnur ríki eða fjölþjóðastofnanir. Þannig var það á þessum fundi að ég tel það vera frekar í þágu þess ríkis sem óskaði eftir fundinum að um hann gildi ákveðið þagnargildi. Þegar spurt er um tilkynningu sem ríkisstjórnin gaf út um að sérstaklega yrði hugað að fjármögnuninni þá þekki ég ekki þá tilkynningu en í minni tíð er hugað að fjármálunum almennt í þeim málaflokkum sem undir mig heyra en ekki í einstökum málum.